Jonathan Glenn hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Breiðablik. Þetta kemur fram á Blikar.is, stuðningsmannavef Breiðabliks.
Glenn kom til Blika frá ÍBV um mitt sumar 2015 og skoraði þá átta mörk í níu leikjum fyrir Kópavogsliðið. Í kjölfarið skrifaði hann undir tveggja ára samning við Breiðablik.
Glenn náði sér engan veginn á strik á síðasta tímabili og skoraði ekki mark í 14 leikjum í Pepsi-deildinni.
Glenn ku vera í leit að samningi erlendis en líklegast þykir að hann spili í Bandaríkjunum á næsta ári, að því er fram kemur á Blikar.is.
Glenn, sem er 29 ára framherji frá Trínidad og Tóbagó, kom upphaflega til ÍBV 2014. Það tímabil skoraði hann 14 mörk í 21 leik og varð næstmarkahæstur í Pepsi-deildinni.
