Innlent

Prófessor í stjórnmálafræði segir augljóst að það sé stjórnarkreppa í landinu

Anton Egilsson skrifar
Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði.
Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði. Mynd/samsett
Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, segir augljóst að það sé stjórnarkreppa í landinu. Þetta segir Eiríkur í kjölfar yfirlýsingar forseta Íslands sem segir þá stöðu sem upp er komin varðandi myndun nýrrar ríkisstjórnar alvarlega.

„Þegar forseti segir að það sé komin upp alvarleg staða þá merkir það að það sé stjórnarkreppa í landinu. Það þýðir að það sé búið að þrautreyna allar augljósar sviðsmyndir til að mynda ríkisstjórn í landinu.“ Sagði Eiríkur í kvöldfréttum Stöðvar tvö í kvöld.  

Hann segir þá að hugsanlega sé kominn tími til að fara í nýjar og skapandi aðgerðir. Nefnir hann minnihlutastjórn sem dæmi.

„Kannski þurfa menn að fara í einhverjar skapandi aðgerðir, gera eitthvað nýtt. Það er til dæmis að koma hér á minnihlutastjórn. Augljósasti kosturinn í þeim efnum væri minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna.“

Þingstyrkur flokka á Alþingi hefur hingað til ráðið för hjá Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, við veitingu umboðs til stjórnarmyndunar. Samkvæmt því ætti Framsóknarflokkur að vera næstur í röðinni en Eiríkur segir þá ekki líklega til að ná að mynda meirihlutastjórn.

„Miðað við hvernig forseti hefur hagað þessu ætti Framsókn að fá umboðið næst. Gallinn við það er þó sá að maður sér ekki hvernig þeir eiga að geta myndað meirihlutastjórn.“   

Eiríkur segir að þó að stjórnarkreppa ríki í landinu þýði það ekki að neyð sé uppi.

„Það er algjörlega augljóst að það sé stjórnarkreppa í landinu. Það þýðir þó ekki að það sé einhver neyð eða vá uppi og við getum alveg farið glöð inn í jólin þó það sé stjórnarkreppa.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×