Handbolti

Þórir getur jafnað gullmetið hennar Marit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir er að gera flotta hluti með lið Noregs.
Þórir er að gera flotta hluti með lið Noregs. vísir/afp
Marit Breivik er sigursælasti þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta en kannski ekki mikið lengur. Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson gerir sig líklegan til að setjast við hlið hennar á toppnum eftir Evrópumótið sem stendur nú yfir í Svíþjóð.

Norska kvennalandsliðið hefur unnið fimm fyrstu leiki sína á EM 2016 og mætir Frökkum í undanúrslitum keppninnar í kvöld.

Norðmenn þurfa ekki lengur að hafa áhyggjur af Rússum, Serbum eða Svartfellingum sem eru einu þjóðirnar sem hafa slegið út norska liðið á undanförnum tíu stórmótum.

Best var líklega að losna við Ólympíumeistara Rússa sem eru eina handboltaþjóðin sem hefur unnið norsku stelpurnar í undanúrslitaleik á stórmóti á þessari öld.

Fimm sinnum hefur Þórir stýrt norsku skútunni alla leið og unnið gullið.  Takist honum það í sjötta sinn mun hann jafna met Marit Breivik. Marit Breivik naut reyndar góðrar hjálpar frá Þóri við að vinna fern af sínum sex gullverðlaunum.

Marit Breivik.vísir/afp
Marit Breivik tók við norska liðinu árið 1994 þegar liðið hafði aldrei unnið gull á stórmóti. Tvenn silfurverðlaun á Ólympíuleikum og tvenn bronsverðlaun á HM höfðu komið í hús en undir stjórn Marit braut norska liðið ísinn þegar liðið vann gull á EM 1998. Liðið varð heimsmeistari á HM árið eftir og vann brons á Ólympíuleikunum í Sydney 2000.

Þórir hafði þjálfað norska unglingalandsliðið frá 1994 til 2001 en sumarið 2001 var hann ráðinn sem aðstoðarþjálfari Marit Breivik. Þau áttu síðan eftir að vinna saman í sjö ár og á tíu stórmótum. Uppskeran var sjö verðlaun, þar af fjögur gull.

Þórir getur því ekki aðeins jafnað gullmet Marit Breivik heldur einnig tekið þátt í að vinna sitt tíunda gull á stórmóti sem þjálfari eða aðstoðarþjálfari norska landsliðsins.

Noregur mætir Frakklandi í seinni undanúrslitaleik kvöldsins en á undan mætast Holland og Danmörk.

Franska landsliðið er ekkert lamb að leika við. Liðið hefur aðeins tapað einum leik á mótinu og það var á móti Hollendingum í lokaleik riðilsins þar sem þær frönsku voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 12-7.

Franska liðið fór í úrslitaleikinn á Ólympíuleikunum í Ríó þar sem liðið varð að sætta sig við silfur eftir tap á móti Rússum.Noregur hefur ekki mætt Frökkum á stórmóti síðan á EM í Serbíu 2012 en þá unnu þær norsku með ellefu marka mun í leik liðanna í milliriðli.

Nokkrum mánuðum fyrr hafði norska liðið aftur á móti byrjað Ólympíuleikana í London á því að tapa með einu marki fyrir Frökkum.

Franska landsliðið hefur ekki unnið verðlaun á tveimur stórmótum í röð frá 2003 og aldrei tekið tvenn verðlaun á sama ári. Norska liðið á aftur á móti möguleika á því að taka tvenn stórmótaverðlaun á þriðja Ólympíuárinu í röð.

Þórir og norsku stelpurnar mættu hungruð til leiks á EM í ár eftir „vonbrigðin“ á Ólympíuleikunum. Brons er sigur á flestum bæjum nema hjá norska landsliðinu þar sem enginn er sáttur nema með gull um hálsinn.

Þórir Hergeirsson.Vísir/AFP


Flest verðlaun þjálfara norska landsliðsins á stórmótum

Marit Breivik

13 verðlaun á 19 stórmótum á 15 árum

Þjálfaði frá 1994 til 2008

6 gull

5 silfur

2 brons

Þórir Hergeirsson

8 verðlaun á 9 stórmótum á 7 árum

Hefur þjálfað liði frá 2009

5 gull

1 silfur

2 brons



Gullverðlaun þjálfara á 9 stórmótum í tíð Þóris 2009-2016

5 - Þórir Hergeirsson (Noregur)

2 - Yevgeni Trefilov (Rússland, HM 2009 og ÓL 2016)

1 - Morten Soubak (Brasilía, HM 2013)

1 - Dragan Adzic (Svartfjallaland, Em 2012)



Undanúrslitaleikir norsku stelpnanna undir stjórn Þóris

Sem aðstoðarþjálfari Marit Breivik

Sigur á Júgóslavíu á HM 2001*

Sigur á Frakklandi á EM 2002

Sigur á Ungverjalandi á EM 2004

Sigur á Frakklandi á EM 2006

Sigur á Þýskaland á HM 2007

Sigur á Suður-Kóreu á ÓL 2008

Sigur á Rússlandi á EM 2008

Sem aðalþjálfari

Tap á móti Rússlandi á HM 2009

Sigur á Danmörku á EM 2010

Sigur á Spáni á HM 2011

Sigur á Suður-Kóreu á ÓL 2012

Sigur á Ungverjalandi á EM 2012

Sigur á Svíþjóð á EM 2014

Sigur á Rúmeníu á HM 2015*

Tap á móti Rússlandi á ÓL 2016*

* Framlengdir leikir

Samanlagt 13 sigrar í 15 undanúrslitaleikjum

Marit Breivik.Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×