Handbolti

Þórir kominn með norska liðið í úrslit

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Þórir heldur áfram að stýra Noregi í úrslitaleiki.
Þórir heldur áfram að stýra Noregi í úrslitaleiki. vísir/afp
Kvennalandslið Noregs, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, tryggði sér í kvöld sæti í úrslitaleik EM í handbolta. Liðið lagði þá Frakkland, 20-16, í undanúrslitum.

Frakkar tóku frumkvæði strax í upphafi en Norðmenn unnu sig inn í leikinn eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn. Er fyrri hálfleikur var allur leiddu Norðmenn með tveimur mörkum, 11-9.

Síðari hálfleikur var æsispennandi. Bæði lið náðu frumkvæðinu en Norðmenn náðu því á lokasprettinum og mörðu sigur, 20-16, í leik þar sem sterkur varnarleikur var í fyrirrúmi.

Nora Mörk átti stórleik fyrir Noreg og skoraði sjö mörk. Silje Solberg var frábær í markinu. Varð 13 skot og var með 59 prósent markvörslu.

Alexandra Lacrabere var atkvæðamest í liði Frakklands með sex mörk.

Noregur spilar við Holland í úrslitaleiknum um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×