Handbolti

Umfjöllun: Ísland - Færeyjar 24-16 | Íslenska liðið í kjörstöðu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórey Rósa Stefánsdóttir skoraði sex fyrstu mörk Íslands í seinni hálfleik.
Þórey Rósa Stefánsdóttir skoraði sex fyrstu mörk Íslands í seinni hálfleik. vísir/valli
Ísland er í frábærri stöðu í undanriðli þrjú í undankeppni HM 2017 eftir öruggan átta marka sigur, 24-16, á Færeyjum í höllinni á Hálsi í Þórshöfn í dag.

Íslenska liðið hefur þar með unnið báða leiki sína í riðlinum og er á toppi hans með fjögur stig. Lokaleikur Íslands er gegn Makedóníu síðdegis á morgun. Tvö efstu liðin í riðlinum tryggja sér sæti í umspili um laust sæti á HM í Þýskalandi sem fer fram í desember 2017. 

Færeyska liðið er ofboðslega slakt en því tókst samt að hanga í pilfaldinum á því íslenska í fyrri hálfleik. Sóknarleikur beggja liða var slakur, og þá sérstaklega hjá heimakonum sem skoruðu aðeins tvö mörk á fyrstu 21 mínútu leiksins.

Boltinn gekk hægt og illa í íslensku sókninni og mistökin voru of mörg. Sem betur fer nýttu Færeyingar sér nánast aldrei mistök Íslendinga í sókninni en til marks um það skoraði heimaliðið aðeins tvö mörk eftir hraðaupphlaup í leiknum.

Þrátt fyrir vandræðin í sókninni var íslenska vörnin mjög sterk og Guðrún Ósk Maríasdóttir varði vel í markinu, alls 11 skot (46%).

Ísland leiddi með fjórum mörkum í hálfleik, 9-5, og gekk svo frá leiknum í upphafi seinni hálfleiks. Þórey Rósa Stefánsdóttir fór þar fremst í flokki en hún skoraði sex fyrstu mörk íslenska liðsins í seinni hálfleik. Það voru liðnar 16 mínútur af seinni hálfleik þegar annar íslenskur leikmaður en Þórey Rósa skoraði.

Þórey Rósa kom Íslandi í 15-8 þegar hún skoraði sitt sjötta mark í röð og þá var björninn unninn.

Axel Stefánsson var duglegur að dreifa álaginu og allir leikmenn íslenska liðsins fengu fínan spiltíma í leiknum í dag. Það gæti reynst dýrmætt gegn Makedóníu á morgun.

Ísland náði mest níu marka forystu en vann á endanum átta marka sigur, 24-16.

Þórey Rósa var markahæst í íslenska liðinu með sjö mörk. Karen Knútsdóttir, Birna Berg Haraldsdóttir, Steinunn Hansdóttir og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoruðu þrjú mörk hver.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×