Handbolti

Þórir og stelpurnar byrja á sigri á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nora Mörk fær hér harðar móttökur í kvöld.
Nora Mörk fær hér harðar móttökur í kvöld. Vísir/AFP
Þórir Hergeirsson stýrði norska kvennalandsliðinu til tveggja marka sigurs á Rúmeníu í kvöld, 23-21, í fyrsta leik liðsins á EM í Svíþjóð.

Norska liðið var með gott forskot stærsta hluta leiksins en hleypti þeim rúmensku inn í leikinn í lokin. Norska liðið hélt þó út og byrjar Evrópumótið vel.

Nora Mörk skoraði sjö mörk fyrir norska liðið og þær Veronica Kristiansen og Camilla Herrem voru báðar með fimm mörk. Hin magnaða Cristina Neagu skoraði sex mörk.

Norska liðið var skrefinu á undan allt frá því að Þórir tók leikhlé í stöðunni 7-6 fyrir Rúmeníu þegar rúmar tólf mínútur voru liðnar af leiknum.

Norska liðið svaraði með þremur mörkum í röð og vann næstu tólf mínútur 7-2.

Noregur var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13-11, og náði síðan mest fimm marka forystu í seinni hálfleiknum. Rúmenska liðið gafst ekki upp og vann upp muninn.

Þær náðu hinsvegar aldrei að jafna metin og norsku stelpurnar fögnuðu flottum sigri.

Danir unnu 22-21 sigur á Svartfjallalandi í spennandi leik sem fór fram á sama tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×