Framlög íslenska ríkisins til þjóðkirkjunnar aukast um 113,4 milljónir á árinu 2017 samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi sem kynnt var í dag.
Þjóðkirkjan mun fá tveggja milljarða fjárframlag samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar miðað við nýtt fjárlagafrumvarp. Á síðasta ári var framlagið um 1,9 milljarðar.
Innifalið í hækkuninni eru alls 21 milljón króna stofnkostnaðarframlög til Skálholtsstaðar, Hallgrímskirkju, Hóladómkirkju og Dómkirkjunnar í Reykjavík sem ekki eru hluti af fyrrgreindu samkomulagi. Jafnframt er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs hækki um 1,9 milljón króna á árinu 2017.
Í frumvarpinu er einnig lagt til að föst krónutala sóknargjalda hækki um 22 krónur úr 898 krónum á mánuði samkvæmt gildandi lögum í 920 krónur fyrir árið 2017.
