Innlent

Ólýsanleg tilfinning að sjá ljósin á vélsleðanum

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar

„Ég get bara ekki lýst því hvers konar tilfinning það var núna um tíuleytið þegar ég sá ljósin á vélsleðanum,“ sagði Friðrik Rúnar Garðarsson í samtali við Stöð 2 síðdegis í dag. 

Friðrik Rúnar varð viðskila við félaga sína seinnipart dags á föstudaginn en hann hafði farið á rjúpuveiðar í landi Einarsstaða á Héraði.

Fjölmennt lið björgunarsveitarmanna alls staðar að af landinu tók þátt í leitinni af Friðriki, 440 manns þegar mest lét.

Friðrik fannst um tíuleytið í morgun á mel á austanverðum Ketilsstaðahálsi og var hann fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar til byggða.

Heimtur úr helju

Friðrik var kaldur og hrakinn þegar hann fannst en að öðru leyti heill heilsu.

„Mér leið eins og ég hefði verið heimtur úr helju,“ sagði Friðrik. „Ég er búinn að sofa úti í tvær nætur, grafinn í skafl,“ sagði hann og fullyrðir að hann hafi verið orðinn dálítið blautur þrátt fyrir að hafa verið vel búinn.

Friðrik var ekki með síma þegar hann týndist.

„Við vorum þrír saman og ætluðum allir að vera með síma,“ sagði hann. Hann kveðst þekkja svæðið vel og oft hafa gengið um þessar slóðir en skyggnið var óvenju slæmt á föstudaginn. „Núna urðu skilyrðin þau að ég sá ekkert.“

Ítarlegra viðtal við Friðrik verður í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×