Fótbolti

Dúndurbyrjun Inter gerði gæfumuninn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mauro Icardi, fyrirliði Inter, skoraði tvívegis í kvöld.
Mauro Icardi, fyrirliði Inter, skoraði tvívegis í kvöld. vísir/getty
Frábær byrjun Inter lagði grunninn að 4-2 sigri liðsins á Fiorentina í ítölsku úrvalsdeildinni í kvöld. Með sigrinum komst Inter upp fyrir Fiorentina og í 8. sæti deildarinnar.

Inter byrjaði leikinn af fítonskrafti og eftir 19 mínútur var staðan orðin 3-0. Marcelo Brozovic kom Inter yfir strax á 3. mínútu og sex mínútum síðar bætti Antonio Candreva öðru marki við. Mauro Icardi skoraði svo þriðja markið á 19. mínútu.

Nikola Kalinic minnkaði muninn í 3-1 á 37. mínútu en í uppbótartíma fyrri hálfleiks fékk Gonzalo Rodríguez, varnarmaður Fiorentina, að líta rauða spjaldið.

Einum færri minnkaði Fiorentina muninn í 3-2 þegar Josip Ilicic kom boltanum framhjá Samir Handanovic, markverði Inter.

Nær komust gestirnir þó ekki og Icardi gulltryggði sigur Inter þegar hann skoraði fjórða mark liðsins í uppbótartíma. Lokatölur 4-2, Inter í vil.

Fyrr í kvöld gerðu Napoli og Sassuolo 1-1 jafntefli. Lorenzo Insigne kom Napoli yfir á 42. mínútu en Marcello Gazzola jafnaði metin sjö mínútum fyrir leikslok.

Napoli er í 7. sæti deildarinnar en Sassuolo í því sextánda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×