Á bænum Borg á Lófóten í Norður-Noregi er búið að endurreisa höfðingjasetur í þeirri mynd sem fornleifarannsóknir sýna að þar stóð um það leyti sem Ísland byggðist. Þær rannsóknir þykja styðja frásagnir Íslendingasagna um að efnaðir höfðingjar hafi verið í hópi landnámsmanna en skálinn var 83 metra langur. Þegar sagnfræðingar báru saman fornar ritheimildir og aldursgreiningar varð niðurstaðan sú að líklegast hefði Ólafur tvennumbrúni, sá sem nam Skeið, reist skálann.

Norðmenn eru þarna búnir að byggja upp ferðaþjónustu, með sýningum, söngleikjum og siglingum víkingaskipa, allt í nafni Ólafs tvennumbrúna.
„Hann fór af Lófót til Íslands; hann nam Skeið öll milli Þjórsár og Hvítár og til Sandlækjar; hann var hamrammur mjög," segir Landnámabók.
Ólafur bjó að Ólafsvöllum á Skeiðum og þar segir Georg Kjartansson bóndi okkur að þeim hafi komið á óvart hversu Norðmenn gerðu mikið með Ólaf tvennumbrúna í Noregi.

Nánar er fjallað um Ólaf tvennumbrúna í þættinum Landnemarnir á Stöð 2 í kvöld, klukkan 19.55, í opinni dagskrá. Þar verður einnig fjallað um fleiri landsnámshöfðingja, eins og Ingimund gamla, Helga magra, Þórunni hyrnu og Hrollaug Rögnvaldsson.
