Þetta segir Þórir Guðmundsson, sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi og meðlimur áhafnar Responder.
Þórir og Jóhanna Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur starfa á Responder fyrir hönd Rauða krossins á Íslandi.
„Við erum 27 manns á skipinu og ég finn mjög fyrir því að það gera sér allir grein fyrir alvarleika þessa verkefnis,“ segir Þórir. Þau Jóhanna hafa verið á Responder í þrjár vikur og verða í áhöfninni fram undir lok mánaðar.

„Þannig vorum við á þriðjudagskvöld búin að útiloka að fleiri flóttamannabátar kæmu í ljós og vorum að klára kvöldmatinn þegar Jóhanna steig út á þilfar og heyrði þá hróp og köll. Þá var þarna gúmbátur fullur af fólki,“ segir Þórir.
Báturinn sást ekki á ratsjá og ef Responder hefði ekki verið í nánd hefðu þeir 99 flóttamenn sem voru í bátnum líklega farist.
Á miðvikudag bjargaði áhöfnin fólki úr þremur bátum til viðbótar og eru nú 554 flóttamenn um borð í Responder.
Þórir segir fyrirliða Rauða krossins í skipinu vera Erítreumanninn Abdel. Hann fór sjálfur sömu leið og flóttamennirnir sem nú er bjargað fyrir fimm árum og starfar í dag fyrir ítalska Rauða krossinn.
„Svo skemmtilega vill til að þegar sendinefnd kom frá Íslandi til að skoða flóttamannamál þá varð hann meðal annarra fyrir svörum.“
Rauði krossinn á Íslandi stendur nú fyrir söfnun vegna verkefnanna á Miðjarðarhafi. Hægt er að hringja í 904-1500, 904-2500 og 904-5500 til þess að styrkja um 1.500, 2.500 og 5.500 krónur.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu