Margt hefur gerst á löngum ferli sveitarinnar, en í dag er hljómsveitin skipuð leikkonunum Elvu Ósk Ólafsdóttur, Kötlu Margréti Þorgeirsdóttur, Vigdísi Gunnarsdóttur og Ólafíu Hrönn Jónsdóttur. Hljómsveitin hefur æft stíft síðustu vikur fyrir stóra daginn en um er að ræða árlegt ball hljómsveitarinnar þar sem gleðin ræður ríkjum.
„Sparitónninn og tónlistarkonan Unnur Birna Björnsdóttir verður líka með okkur, en hún kemur oft með okkur að spila, sem er frábær viðbót við hópinn,“ segir Ólafía spennt fyrir næstu helgi.

„Það er tilvalið að dusta rykið af dansskónum því þetta verður sko bara stuð og gaman, þar sem fólk dansar fram á rauðanótt. Við erum að taka bestu lög seinustu áratuga, ásamt frumsömdu efni. Undirbúningurinn hefur gengið virkilega vel, við sjáum um að skreyta salinn, þetta er mikil krúttsamkoma og ekki má gleyma frábærum leynigesti, sem mætir á svæðið og tekur lagið, en hann verður ekki af verri endanum frekar en fyrri daginn,“ segir hún og hvetur sem flesta karlmenn til að mæta, þar sem þeir hafa nóg að gera á ballinu við að dansa við skvísurnar.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 9. nóvenmber.