Trump hefur margrætt um áætlanir sínar í umhverfismálum, eða skort þar á, þó lítið hafi verið fjallað um þær fyrir kosningar. Nefna má að nánast ekkert var minnst á hlýnun jarðar og stefnu frambjóðendanna tveggja í kappræðum fyrir kosningarnar
Sjá einnig: Loftslagssamningur samþykktur í París
Hann hefur sagt að hann muni draga Bandaríkin úr Parísarsamkomulaginu um aðgerðir í loftslagsmálum. Þá hefur hann einnig gefið skyn í að hann muni koma í veg fyrir frekari greiðslur úr vösum Bandaríkjanna til Sameinuðu þjóðanna sem eyrnamerktar eru loftslagsmálum.
Parísarsamkomulagið felur í sér að hitastig jarðarinnar hækki ekki um meira en tvær gráður fyrir árið 2050 og að fara skuli yfir stöði mála á fimm ára fresti.
Samkvæmt Parísarsamkomulaginu getur ekkert ríki sem er aðili að samkomulaginu dregið sig úr því á næstu fjórum árum en í raun er ekkert sem getur komið í veg fyrir að Trump og ríkisstjórn hans framfylgi einfaldlega ekki samkomulaginu.

Trump hefur einnig sagst vilja losna við Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna og lýst því starfi sem þar er unnið sem hneisu. Þá vill Trump koma í veg fyrir frekari útgjöld bandaríska ríkisins til þróunar á hreinni orku, svo sem, vind- og sólarorku sem og þróun rafbíla.
Sjá einnig:Hlýnun jarðar dýrkeypt fyrir efnahagslífið
Þá hefur Trump gefið út að hann vilji auka kolaframleiðslu Bandaríkjanna, bora eftir olíu á verndarsvæðum og auka framleiðslu á jarðefnaeldsneyti.
Gangi þetta allt eftir má gera ráð fyrir að útblástur Bandaríkjanna á koltvísýringi aukist um 3,4 milljarða tonna umfram þær tillögur sem Hillary Clinton gerði ráð fyrir að koma í verk hefði hún verið kjörin forseti, samkvæmt útreikningum Lux Research.

Saman bera Kína og Bandaríkin ábyrgð á um 40 prósent af losun gróðurhúsalofttegunda.
Parísarsamkomulagið þótti talsverður áfangasigur í baráttunni gegn hlýnun jarðar og átti að marka nýtt upphaf þar sem ríki heimsins gripu til sameiginlegra aðgerða til að stemma í stigu við hlýnun jarðar.
Sjá einnig:Ekkert lát á hlýnun jarðar
Samkomulagið er þó brothætt og ekki er erfitt að ímynda sér að dragi Trump Bandaríkin úr Parísarsamkomulaginu muni leiðtogar ríkja eins og Indlands og Kína hugsa með sér að þeir þurfi ekki að taka af festu á þessum málum í ljósi þess að leiðtogum Bandaríkjanna sé sama um loftslagsmál.

Meðal annars má búast við auknum veðuröfgum, flóðum og fárviðrum ásamt þurrkum og hitabylgjum. Sérstök athygli er vakin á þeirri hættu sem stafar af því að þurrkarnir geta eyðilagt uppskeru og haft mikil áhrif á matvælaöryggi fólks.
Þá er reiknað með að hækkandi hitastig í heiminum gæti kostað alþjóðlega hagkerfið yfir tvær billjónir dollara fyrir árið 2030.
Hafa verður þó huga að alls er óvíst hvort að Trump muni standa við stóru orðin þegar til kastanna kemur. Umhverfismál eru ofarlega á baugi í Bandaríkjunum og hafa ríki á borð við New York og Kaliforníu samþykkt metnaðarfullar áætlanir í umhverfismálum.
Þá vakti athygli að heyra mátti sáttartón í sigurræðu Trump í morgun þar sem hann þakkaði meðal annars Clinton fyrir störf sín fyrir Bandaríkin í gegnum árin.