Emil Hallfreðsson og félagar í Udinese eru ósigraðir í síðustu þremur leikjum sínum í ítölsku úrvalsdeildinni.
Udinese mætti Torino í kvöld og var nálægt því að landa þriðja sigrinum í röð.
Torino leiddi 0-1 í hálfleik en tvö mörk um miðbik seinni hálfleiks komu heimamönnum í góða stöðu. En Adem Ljajic tryggði gestunum stig þegar hann jafnaði metin 13 mínútum fyrir leikslok. Lokatölur 2-2.
Emil kom inn á sem varamaður í hálfleik og stóð fyrir sínu. Emil hefur komið við sögu í sex deildarleikjum á tímabilinu.
Eftir jafnteflið er Udinese í 12. sæti deildarinnar með 14 stig.

