Handbolti

Geir um Tékkaleikinn: Eigum harma að hefna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Geir Sveinsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, segir að riðill Íslands í undankeppni EM 2018 sé sterkur. Auk Íslands eru Tékkland, Úkraína og Makedónía í riðlinum.

„Þetta er að mörgu leyti jafn riðill og það eru ákveðin spurningarmerki varðandi liðin. Tvö efstu sætin gefa þátttökurétt á EM 2018 í Króatíu og ég vil auðvitað vera jákvæður og meta möguleikana á að komast áfram góða. En við þurfum að hafa virkilega mikið fyrir því og það er ekkert sjálfgefið að það gerist,“ sagði Geir í samtali við Hörð Magnússon í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Tékkar verða fyrstu mótherjar Íslendinga en liðin mætast í Laugardalshöllinni á miðvikudagskvöldið. Síðasti leikur Íslands og Tékklands var á HM 2015 í Katar en þar rúlluðu Tékkar yfir okkar menn og unnu 11 marka sigur, 36-25.

„Þetta er mjög öflugt lið og fljótt á litið sýnist mér 10-11 leikmenn úr þeim hópi vera að koma til landsins. Kjarninn er sá sami og lék okkur grátt í Katar fyrir rúmu einu og hálfu ári síðan. Við eigum harma að hefna,“ sagði Geir.

Eftir leikinn á miðvikudaginn fer íslenska liðið til Sumy og mætir Úkraínumönnum. Ferðalagið er langt og undirbúningurinn knappur.

„Úkraína er eilítið óskrifað blað. Þetta er langt ferðlag og allur fimmtudagurinn fer í að koma okkur á leikstað og leikurinn er á laugardegi. Það verður erfið viðureign,“ sagði Geir sem gerði nokkrar breytingar á landsliðshópnum fyrir leikina gegn Tékklandi og Úkraínu. Landsliðsþjálfarinn vonast til að nýju mennirnir grípi tækifærið.

„Þetta er kannski ekki meira en ein breyting frá því við spiluðum við Portúgal í sumar, þ.e. að Róbert Gunnarsson er ekki með og Arnar Freyr [Arnarsson] kemur inn. En það eru kannski nöfn sem eru með færri landsleiki heldur en leikmenn eins og Snorri [Steinn Guðjónsson] og Alexander [Petersson] sem eru hættir. Það kemur maður í manns stað og menn þurfa að sýna sig og sanna,“ sagði Geir að lokum.


Tengdar fréttir

Sveinbjörn kallaður í hópinn

Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, kallaði á nýjan markvörð í hópinn í gær.

Strákarnir æfðu í Höllinni | Myndir

Ríflega helmingur íslenska landsliðsins í handbolta er mætt til landsins fyrir leikina gegn Tékklandi og Úkraínu og það tók æfingu í Laugardalshöll í kvöld.

Snorri Steinn hættur í íslenska landsliðinu

Snorri Steinn Guðjónsson, aðalleikstjórnandi íslenska handboltalandsliðsins í meira en áratug, hefur ákveðið að gefa ekki lengur kost á sér í íslenska A-landsliðið í handbolta. Þetta er mikið áfall fyrir íslenska landsliðið enda hefur Snorri stýrt sóknarleik liðsins í gegnum blómatíma þess.

Barátta um seinni markvarðarstöðuna

Það eru afar litlar líkur á því að Aron Rafn Eðvarðsson geti spilað með íslenska landsliðinu í komandi landsleikjum í undankeppni EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×