Björt framtíð, Vinstri græn, Píratar og Samfylking lögðu í gær fram tillögur um breytingar á frumvarpi Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, um breytingar á almannatryggingum. Fulltrúar flokkanna segja að sú leið sem meirihlutinn hefur valið til að hækka greiðslur almannatrygginga tryggi ekki að greiðslurnar fylgi þróun lágmarkslauna og verði 300.000 krónur.
Minnihlutinn leggur til að hækka ellilífeyri og lífeyri öryrkja um 13,4 prósent. Báðar leiðirnar myndu skila einbúum 280.000 krónum á mánuði en minnihlutinn segir skerðingu vegna tekna minni ef þeirra leið verði farin. Þá myndu öryrkjar og eldri borgarar í sambúð fá 241.300 krónur á mánuði með leið minnihlutans en 227.883 með leið ríkisstjórnarinnar.
Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, er ekki bjartsýn á að ríkisstjórnin samþykki tillögurnar en segir þær þó mikilvægar.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.
Vilja að stjórnin efni loforð fyrir kosningarnar

Tengdar fréttir

Vilja hækka bætur aldraðra og flýta hækkun lífeyristökualdurs
Ríkisstjórn Íslands hefur lagt til að einstæðum eldri borgurum verði tryggðar 300 þúsund krónur á mánuði frá 1. janúar 2018.