Veigar Páll kemur til FH frá uppeldisfélagi sínu Stjörnunni þangað sem hann sneri aftur fyrir fjórum árum þegar farsælum þrettán ára atvinnumannaferli lauk.
Þá var einnig tilkynnt að samhliða því að spila með meistaraflokki FH mun hann einnig sinna afreksþjálfun hjá félaginu. Veigar Páll gerði eins árs samning við Hafnfirðinga.
Þessi 36 ára gamli framherji varð Íslandmeistari með Stjörnunni sumarið 2014 en hann skoraði þá sex mörk í 17 leikjum. Veigar varð einnig Íslandsmeistari með KR sumarið 2003 þegar hann skoraði sjö mörk í 13 leikjum en eftir það fór hann í atvinnumennsku.

Á ferli sem hefur nú staðið yfir í tvo áratugi spilaði Veigar Páll 34 landsleiki fyrir Ísland og skoraði í þeim sex mörk. Hann náði mestum hæðum í atvinnumennskunni með Stabæk í Noregi þar sem hann varð Noregsmeistari árið 2008.
Veigar Páll er fyrsti leikmaðurinn sem FH fær til sín eftir að tímabilinu lauk en áður var það búið að ganga frá nýjum samningi við skoska framherjann Steven Lennon.