Handbolti

Refirnir hans Erlings áfram á sigurbrautinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erlingur Birgir Richardsson.
Erlingur Birgir Richardsson. Vísir/Getty
Füchse Berlin hélt sigurgöngu sinni áfram í þýska handboltanum í dag þegar liðið sótti tvö stig til Hannover.

Füchse Berlin vann þá eins marks útisigur á TSV Hannover-Burgdorf, 30-29, eftir að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik, 18-13.

Erlingur Birgir Richardsson byrjar því frábærlega með sitt lið en Refirnir hans hafa fullt hús eftir sex fyrstu umferðirnar.

Füchse Berlin var fimm mörkum yfir í upphafi seinni hálfleiks, 19-14, en þá kom skelfilegur kafli þar sem Hannover-liðið skoraði átta mörk gegn aðeins tveimur og komst einu marki yfir, 22-21.

Petar Nenadić var betri en enginn á lokakaflanum en hann skoraði fjögur mörk á síðustu níu mínútunum sem Füchse Berlin vann 6-4.

Bjarki Már Elísson skoraði 3 mörk úr 3 skotum í leiknum og var þriðji markahæsti maður liðsins. Bjarki Már skoraði öll mörkin sína á fyrstu 22 mínútum leiksins og kom sínu liði í 13-9 með því síðasta.

Serbinn Petar Nenadić var markahæstur með 10 mörk og Svíinn Mattias Zachrisson skoraði 4 mörk. Kresimir Kozina skoraði 3 mörk eins og Bjarki Már.

Rúnar Már Kárason klikkaði á báðum sínum skotum en Daninn Morten Olsen var markahæstur í hans liði með 10 mörk.

Füchse Berlin og Flensburg-Handewitt eru einu liðin sem hafa ekki tapað stigi í vetur en lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í THW Kiel hafa unnið 5 af 6 leikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×