Handbolti

Aron kom að níu mörkum í öruggum sigri Veszprém

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron skoraði fjögur mörk og gaf fimm stoðsendingar.
Aron skoraði fjögur mörk og gaf fimm stoðsendingar. vísir/epa
Aron Pálmarsson átti góðan leik þegar Veszprém vann sjö marka sigur, 32-25 á Celje í SEHA-deildinni í handbolta.

Þetta var þriðji sigur Veszprém í röð en með honum komst liðið upp í 2. sæti deildarinnar.

Aron skoraði fjögur mörk og gaf fimm stoðsendingar í leiknum í Veszprém Aréna í dag.

Heimamenn byrjuðu leikinn frábærlega og eftir sjö mínútna leik var staðan orðin 6-1, Veszprém í vil.

Celje-menn gáfust þó ekki upp og náðu að minnka muninn í eitt mark, 13-12, eftir að hafa skorað þrjú mörk í röð. En Veszprém svaraði með 4-1 kafla og leiddi með fjórum mörkum í hálfleik, 17-13.

Celje skoraði tvö fyrstu mörkin í seinni hálfleik en þá gáfu Aron og félagar aftur í og náðu þægilegri forystu. Á endanum munaði sjö mörkum á liðunum, 32-25.

Slóvenarnir í liði Veszprém, Dragan Gajic og Gasper Marguc, voru öflugir og skoruðu samtals 11 mörk. Ziga Mlakar skoraði mest fyrir Celje, eða sjö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×