Fótbolti

Sænsku stelpunum varð mjög kalt í Kópavogi í gær: Við stóðum bara allar skjálfandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lotta Schelin og Marta í leiknum í gær.
Lotta Schelin og Marta í leiknum í gær. Vísir/Eyþór
Lotta Schelin tryggði Rosengård 1-0 sigur á Breiðabliki í fyrri leik liðanna í 32 liða úrslitum Meistaradeildarinnar í fótbolta í gær. Í viðtölum eftir leik lýsti Lotta aðstæðunum í Kópavogi sem þeim verstu sem hún hefur upplifað á ferlinum.

Rok og rigning settu sinn svip á leikinn og voru aðstæður í Kópavogi á mörkunum að vera boðlegar fyrir fótboltaleik. Schelin kvartaði líka yfir aðstæðunum í viðtölum eftir leikinn.

„Ef ég segi alveg eins og er þá er þetta í fyrsta skiptið þar sem ég gat ekki beðið eftir því að leikurinn kláraðist. Mér hefur aldrei liðið þannig áður,“ sagði Lotta Schelin í viðtali við Sydsvenskan.

„Við hugsuðum bara, tökum stigin og drífum okkar síðan heim. Það stóðu bara allar skjálfandi. Þetta var svo sannarlega engin fótboltaveisla," sagði Schelin.

Lotta Schelin er markahæsti leikmaður sænska landsliðsins frá upphafi og hefur þrisvar sinnum unnið Meistaradeildina með franska liðinu Lyon þar á meðal í fyrravor.

„Ég verð líka að segja að þetta eru verstu aðstæður sem ég hef spilað við á mínum ferli. Einu spiluðum við með landsliðinu í Wales þegar hitastigið var í kringum núll gráðurnar. Þá varð okkur líka mjög kalt," sagði Schelin.

Lotta Schelin skoraði eina mark leiksins strax á áttundu mínútu og þar við sat. Seinni leikurinn fer síðan fram á heimavelli Rosengård í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×