Kaupsýslumaður í forsetaslag Stefán Pálsson skrifar 9. október 2016 10:00 Líkt og Trump, studdi Willkie Demókrata framan af ævi sinni og hafði tröllatrú á Roosevelt þegar hann var fyrst kjörinn forseti. Mynd/aðsend Hvergi á byggðu bóli tíðkast að halda jafnlanga kosningabaráttu og í Bandaríkjunum. Í hálft ár fylgist heimsbyggðin með forkosningum stóru flokkanna tveggja og því næst tekur við álíka löng barátta hinna útvöldu um lyklavöldin í Hvíta húsinu. Komandi kosningar kunna að virðast einstæðar. Þar takast á annars vegar reyndur Demókrati, Hillary Clinton, með langan stjórnmálaferil en hins vegar athafnamaðurinn Donald Trump sem aldrei hefur gegnt opinberu embætti og er nýgenginn til liðs við Repúblikana eftir að hafa áður stutt Demókrataflokkinn. Þegar nánar er að gáð er þessi staða ekki fordæmalaus og minnir hún um margt á aðrar og ekki síður afdrifaríkar kosningar. Þær voru árið 1940. Óhætt er að segja að Demókratar hafi teflt fram reynslubolta í þeim kosningum. Franklin D. Roosevelt var sitjandi forseti með tvö kjörtímabil að baki. Með því að sækjast eftir þriðja kjörtímabilinu gekk hann gegn rótgróinni hefð þess efnis að forsetar sætu ekki lengur en í átta ár. Var uppruni þessarar venju rakinn til Georges Washington, fyrsta forsetans, sem lét af störfum eftir tvö kjörtímabil. Höfðu margir það til marks um að stofnendur Bandaríkjanna hafi talið þennan hámarkstíma nauðsynlegan til að vernda lýðræðið, en aðrir benda á að sjálfur hafi Washington sagst hætta fyrir aldurs sakir.Haldið fast í völdin Aðrir þaulsetnir forsetar höfðu látið sig dreyma um þriðja kjörtímabil, en ekki haft erindi sem erfiði. Repúblikaninn Ulysses S. Grant, sem gegndi forsetaembættinu frá 1869-77 gerði tilraun til að snúa aftur árið 1880 en tapaði naumlega í forkosningum flokks síns. Sama máli gegndi um Theodore Roosevelt sem var forseti í tæp átta ár í byrjun tuttugustu aldar. Hann sóttist árangurslaust eftir tilnefningu Repúblikana fyrir kosningarnar 1912 og bauð sig þess í stað fram sem óháður. Voru þeir Grant og Teddy Roosevelt báðir harðlega gagnrýndir fyrir þessa framgöngu sína. Woodrow Wilson, sem fór með sigur af hólmi í forsetakosningunum 1912 freistaði þess árið 1920 að næla í þriðja kjörtímabilið. Óvinsældir hans innan eigin flokks komu þó í veg fyrir það og forsetinn hafði það eitt upp úr krafsinu að spilla fyrir útnefningu tengdasonar síns. Stemningin í næsta fjölskylduboði hefur væntanlega verið þvinguð. Franklin D. Roosevelt gat því vísað til ýmissa fordæma þegar hann bauð sig fram í þriðja sinn árið 1940 og enn einu sinni fjórum árum síðar. Benti hann á viðsjárverðra tíma í veröldinni sem rök fyrir því að skipta ekki um leiðtoga. Bandarískir kjósendur féllust á þennan málflutning, en fáeinum árum síðar ákvað Bandaríkjaþing að girða fyrir slíkar þaulsetur forseta með stjórnarskrárbreytingu sem setti embættinu tímamörk. Allt fram á síðustu stundu hélt Roosevelt kápunni á báðum öxlum með það hvort hann gæfi kost á sér í þriðja skipti, en þegar að flokksþingi Demókrata kom í júlí 1940 sendi hann út bréf þess efnis að hann myndi þiggja útnefningu. Hlaut forsetinn nánast rússneska kosningu á fundinum. Tveir nánir samverkamenn lentu í sætunum þar á eftir, varaforsetinn og fyrrverandi kosningastjóri hans. Töldu þeir sig báðir svikna, þar sem Roosevelt hefði gefið þeim undir fótinn með framboð. Hjá Repúblikönum stóð slagurinn milli forsetaefnanna lengur og fleiri nöfn voru um hituna. Var flokksmönnum mikið í mun að velta forsetanum af stóli, enda töldu þeir almennt að aðgerðir Roosevelt-stjórnarinnar á kreppuárunum hefðu verið alltof róttækar og jaðrað við sólíalisma. Forkosningar voru haldnar um Bandaríkin þver og endilöng, en mikilvægi þeirra var miklu minna en síðar varð. Þær voru fremur hugsaðar sem styrkleikamæling eða möguleiki fyrir væntanleg forsetaefni að kynna sig þjóðinni, en bundu ekki hendur flokksþingsins sem haldið var undir lok júnímánaðar. Þrír kandídatar virtust sigurstranglegastir. Tveir þeirra, Arthur H. Vandenberg og Robert A. Taft, voru öldungadeildarþingmenn á sextugsaldri. Þriðji maðurinn var ekki nema 38 ára að aldri. Unglambið hét Thomas Dewey og kom úr allt annarri átt. Dewey var saksóknari í New York og varð þjóðfrægur árið 1936 fyrir að hafa komið hinum alræmda glæpaforingja „Lucky“ Luciano bak við lás og slá. Hollywood tók ásfóstri við hinn unga og myndarlega stjörnulögfræðing með Clark Gable-yfirvaraskeggið og hann varð leynt og ljóst fyrirmyndin að hugprúðum saksóknurum á hvíta tjaldinu.Stríð fyrir ströndu Árið 1938 freistaði Dewey þess að hefja stjórnmálaferil í krafti löggæslufrægðar sinnar og var nærri orðinn ríkisstjóri í New York. Tveimur árum síðar stefndi hugur hans enn hærra, eða í sjálft Hvíta húsið. Dewey stóð sig einna best í forkosningunum og virtist eiga sigurinn vísan á vormánuðum 1940. En þá gripu atburðir á vettvangi alþjóðamála inn í atburðarásina. Hitlers-Þýskaland fór sigurför um Evrópu og vorið 1940 féll Frakkland eins og spilaborg. Framvinda stríðsins beindi athyglinni að einu stærsta ágreiningsefni Repúblikana þar sem annar hlutinn aðhylltist einangrunarstefnu og var á móti því að Bandaríkin skiptu sér af stríðum í fjarlægum löndum, en hinn hlutinn vildi með virkum hætti blanda sér í slík mál til að tryggja bandaríska hagsmuni. Þeir Vandenberg og Taft tilheyrðu báðir hópi einangrunarsinna og urðu þeir Repúblikanar sem kölluðu eftir auknum stuðningi við Breta heimsstyrjöldinni því sífellt andsnúnari þeim báðum. Andspænis vaxandi líkum á stórstyrjöld varð ungur aldur og reynsluleysi Deweys honum sífellt meiri fjötur um fót. Hann þótti einfaldlega ekki bógur í að stjórna ríki á stríðstímum. Þegar leið að flokksþingi fóru þeir Repúblikanar sem hlynntir voru því að Bandaríkin tækju skýra afstöðu til hernaðarins í Evrópu að svipast um eftir kandídat. Sá maður var Wendell Willkie, 48 ára lögfræðingur frá Indiana. Willkie var að mörgu leyti Donald Trump sinnar kynslóðar. Hann varð ungur umsvifamikill athafnamaður og auðgaðist hratt. Fjárfestingar hans voru að miklu leyti í raforkukerfum og fljótlega byggði hann upp viðskiptaveldi í kringum einkareknar rafveitur. Líkt og Trump, studdi Willkie Demókrata framan af ævi sinni og hafði tröllatrú á Roosevelt þegar hann var fyrst kjörinn forseti. Stjórn Roosevelts fékk heimskreppuna í vöggugjöf og brást við með framkvæmdum sem áttu að skapa störf og auka framleiðni. Einna stærst í sniðum voru risavaxin virkjanaverkefni með byggingu stórra stífla og raforkuframleiðslu. Þegar fyrirtæki Willkies lentu í beinni samkeppni við risaorkuver New Deal-stefnu Roosevelts breyttust viðhorf hans ansi hratt. Willkie varð forystumaður samtaka einkareknu raforkuveranna sem áttu í stöðugu stríði við alríkisstjórnina í Washington næstu árin. Síðla árs 1939 ákvað Willkie að skila inn félagsskírteini sínu í Demókrataflokknum. Fáeinum vikum síðar gerðist hann Repúblikani og sendi út tilkynningu um að hann myndi ekki skorast undan tilnefningu flokksins til forsetaembættisins.Hárrétt tímasetning Willkie ákvað að taka ekki þátt í forkosningum Repúblikana heldur veðja á þrátefli milli helstu frambjóðenda þegar til flokksþingsins kæmi. Stríðið í Evrópu hjálpaði til því Willkie var talsmaður þess að Bandaríkin styddu Breta með öllum öðrum hætti en beinni stríðsþátttöku. Frakkar gáfust upp fyrir Þjóðverjum nánast í þann mund sem flokksþingið var sett. Willkie mætti til leiks sigurreifur og kunni að nýta sér fjölmiðla til hins ítrasta. Keppinautarnir höfðu varið mörgum mánuðum í að tryggja sér stuðning í forkosningum, en Willkie eyddi orku sinni í að hafa áhrif á skipuleggjendur flokksþingsins. Lykilræðumenn í dagskránni studdu framboð hans og á undraskjótum tíma tókst að sveigja stemninguna meðal þingfundargesta á þann veg að Willkie væri riddarinn á hvíta hestinum. Niðurstaða Repúblikana kom Roosevelt í opna skjöldu, enda hafði hann búist við að afstaðan til stríðsins í Evrópu yrði aðalmál kosninganna. Sú varð ekki raunin með kjöri Willkies enda frambjóðendurnir báðir með keimlíka stefnu – að styðja Breta með ráðum og dáð, en þó ekki þannig að bandarískir hermenn yrðu sendir á vígvöllinn. Ekki hafði Roosevelt þó fyrr unnið kosningarnar á grunni loforða um að dragast ekki inn í stríðið en hann hóf stríðsundirbúning af krafti. Pólitískt reynsluleysi hins óvænta forsetaefnis birtist með ýmsum hætti í baráttunni. Willkie var ekki orðvar og kom sér ítrekað í vandræði með glannalegum yfirlýsingum. Þannig lýsti hann því yfir á kosningafundi að hann myndi skipa nýjan ráðherra atvinnumála „…og það yrði svo sannarlega ekki kona!“ Var það lítt dulið skot á sitjandi ráðherra, Frances Perkins sem var um þær mundir eini kvenráðherrann í gjörvallri sögu Bandaríkjanna og féllu ummælin vægast sagt í grýttan jarðveg meðal kvenna. Í ljósi þessara verður árangur Willkies í kosningunum að teljast ásættanlegur, en hann fékk 45% atkvæða sem var meira en mótframbjóðendur Roosevelts í tveimur fyrri kosningum höfðu náð. Fjórum árum síðar sóttist hann eftir útnefningu Repúblikana á ný en hafði ekki árangur sem erfiði. Síðla árs 1944 lést Wendell Willkie einungis 52 ára að aldri. Hann hefur almennt hlotið nokkuð góð eftirmæli í sögunni og verður að teljast óvenjulegasta forsetaefni Repúblikana?… þar til nú. Donald Trump Forsetakosningar í Bandaríkjunum Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið Kemur út úr skápnum tveimur árum eftir andlát sitt Lífið Enginn þreyir þorrann eins og Áslaug Arna Lífið Bellingham kominn með bandaríska kærustu Lífið Allt í einu orðin mamman sem missti barnið sitt Lífið Guinness-æðið sem gert hefur íslenska djammara að þjófum Lífið Sjónvarpsbarn komið í heiminn Lífið Ómerkilegir þættir um merkilega konu Gagnrýni Fann ástina og setur íbúðina á sölu Lífið Stærsta þorrablót landsins Lífið Ætla að halda Lífskviðuna þrátt fyrir andlát Ásgeirs í nótt Menning Fleiri fréttir Ætla að halda Lífskviðuna þrátt fyrir andlát Ásgeirs í nótt Katrín dustar rykið af visku sinni Anna Rós hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör Létu sig ekki vanta á frumsýningu Ungfrú Íslands Bókamarkaðurinn færir sig um set Troðfullt hús og standandi lófaklapp „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira
Hvergi á byggðu bóli tíðkast að halda jafnlanga kosningabaráttu og í Bandaríkjunum. Í hálft ár fylgist heimsbyggðin með forkosningum stóru flokkanna tveggja og því næst tekur við álíka löng barátta hinna útvöldu um lyklavöldin í Hvíta húsinu. Komandi kosningar kunna að virðast einstæðar. Þar takast á annars vegar reyndur Demókrati, Hillary Clinton, með langan stjórnmálaferil en hins vegar athafnamaðurinn Donald Trump sem aldrei hefur gegnt opinberu embætti og er nýgenginn til liðs við Repúblikana eftir að hafa áður stutt Demókrataflokkinn. Þegar nánar er að gáð er þessi staða ekki fordæmalaus og minnir hún um margt á aðrar og ekki síður afdrifaríkar kosningar. Þær voru árið 1940. Óhætt er að segja að Demókratar hafi teflt fram reynslubolta í þeim kosningum. Franklin D. Roosevelt var sitjandi forseti með tvö kjörtímabil að baki. Með því að sækjast eftir þriðja kjörtímabilinu gekk hann gegn rótgróinni hefð þess efnis að forsetar sætu ekki lengur en í átta ár. Var uppruni þessarar venju rakinn til Georges Washington, fyrsta forsetans, sem lét af störfum eftir tvö kjörtímabil. Höfðu margir það til marks um að stofnendur Bandaríkjanna hafi talið þennan hámarkstíma nauðsynlegan til að vernda lýðræðið, en aðrir benda á að sjálfur hafi Washington sagst hætta fyrir aldurs sakir.Haldið fast í völdin Aðrir þaulsetnir forsetar höfðu látið sig dreyma um þriðja kjörtímabil, en ekki haft erindi sem erfiði. Repúblikaninn Ulysses S. Grant, sem gegndi forsetaembættinu frá 1869-77 gerði tilraun til að snúa aftur árið 1880 en tapaði naumlega í forkosningum flokks síns. Sama máli gegndi um Theodore Roosevelt sem var forseti í tæp átta ár í byrjun tuttugustu aldar. Hann sóttist árangurslaust eftir tilnefningu Repúblikana fyrir kosningarnar 1912 og bauð sig þess í stað fram sem óháður. Voru þeir Grant og Teddy Roosevelt báðir harðlega gagnrýndir fyrir þessa framgöngu sína. Woodrow Wilson, sem fór með sigur af hólmi í forsetakosningunum 1912 freistaði þess árið 1920 að næla í þriðja kjörtímabilið. Óvinsældir hans innan eigin flokks komu þó í veg fyrir það og forsetinn hafði það eitt upp úr krafsinu að spilla fyrir útnefningu tengdasonar síns. Stemningin í næsta fjölskylduboði hefur væntanlega verið þvinguð. Franklin D. Roosevelt gat því vísað til ýmissa fordæma þegar hann bauð sig fram í þriðja sinn árið 1940 og enn einu sinni fjórum árum síðar. Benti hann á viðsjárverðra tíma í veröldinni sem rök fyrir því að skipta ekki um leiðtoga. Bandarískir kjósendur féllust á þennan málflutning, en fáeinum árum síðar ákvað Bandaríkjaþing að girða fyrir slíkar þaulsetur forseta með stjórnarskrárbreytingu sem setti embættinu tímamörk. Allt fram á síðustu stundu hélt Roosevelt kápunni á báðum öxlum með það hvort hann gæfi kost á sér í þriðja skipti, en þegar að flokksþingi Demókrata kom í júlí 1940 sendi hann út bréf þess efnis að hann myndi þiggja útnefningu. Hlaut forsetinn nánast rússneska kosningu á fundinum. Tveir nánir samverkamenn lentu í sætunum þar á eftir, varaforsetinn og fyrrverandi kosningastjóri hans. Töldu þeir sig báðir svikna, þar sem Roosevelt hefði gefið þeim undir fótinn með framboð. Hjá Repúblikönum stóð slagurinn milli forsetaefnanna lengur og fleiri nöfn voru um hituna. Var flokksmönnum mikið í mun að velta forsetanum af stóli, enda töldu þeir almennt að aðgerðir Roosevelt-stjórnarinnar á kreppuárunum hefðu verið alltof róttækar og jaðrað við sólíalisma. Forkosningar voru haldnar um Bandaríkin þver og endilöng, en mikilvægi þeirra var miklu minna en síðar varð. Þær voru fremur hugsaðar sem styrkleikamæling eða möguleiki fyrir væntanleg forsetaefni að kynna sig þjóðinni, en bundu ekki hendur flokksþingsins sem haldið var undir lok júnímánaðar. Þrír kandídatar virtust sigurstranglegastir. Tveir þeirra, Arthur H. Vandenberg og Robert A. Taft, voru öldungadeildarþingmenn á sextugsaldri. Þriðji maðurinn var ekki nema 38 ára að aldri. Unglambið hét Thomas Dewey og kom úr allt annarri átt. Dewey var saksóknari í New York og varð þjóðfrægur árið 1936 fyrir að hafa komið hinum alræmda glæpaforingja „Lucky“ Luciano bak við lás og slá. Hollywood tók ásfóstri við hinn unga og myndarlega stjörnulögfræðing með Clark Gable-yfirvaraskeggið og hann varð leynt og ljóst fyrirmyndin að hugprúðum saksóknurum á hvíta tjaldinu.Stríð fyrir ströndu Árið 1938 freistaði Dewey þess að hefja stjórnmálaferil í krafti löggæslufrægðar sinnar og var nærri orðinn ríkisstjóri í New York. Tveimur árum síðar stefndi hugur hans enn hærra, eða í sjálft Hvíta húsið. Dewey stóð sig einna best í forkosningunum og virtist eiga sigurinn vísan á vormánuðum 1940. En þá gripu atburðir á vettvangi alþjóðamála inn í atburðarásina. Hitlers-Þýskaland fór sigurför um Evrópu og vorið 1940 féll Frakkland eins og spilaborg. Framvinda stríðsins beindi athyglinni að einu stærsta ágreiningsefni Repúblikana þar sem annar hlutinn aðhylltist einangrunarstefnu og var á móti því að Bandaríkin skiptu sér af stríðum í fjarlægum löndum, en hinn hlutinn vildi með virkum hætti blanda sér í slík mál til að tryggja bandaríska hagsmuni. Þeir Vandenberg og Taft tilheyrðu báðir hópi einangrunarsinna og urðu þeir Repúblikanar sem kölluðu eftir auknum stuðningi við Breta heimsstyrjöldinni því sífellt andsnúnari þeim báðum. Andspænis vaxandi líkum á stórstyrjöld varð ungur aldur og reynsluleysi Deweys honum sífellt meiri fjötur um fót. Hann þótti einfaldlega ekki bógur í að stjórna ríki á stríðstímum. Þegar leið að flokksþingi fóru þeir Repúblikanar sem hlynntir voru því að Bandaríkin tækju skýra afstöðu til hernaðarins í Evrópu að svipast um eftir kandídat. Sá maður var Wendell Willkie, 48 ára lögfræðingur frá Indiana. Willkie var að mörgu leyti Donald Trump sinnar kynslóðar. Hann varð ungur umsvifamikill athafnamaður og auðgaðist hratt. Fjárfestingar hans voru að miklu leyti í raforkukerfum og fljótlega byggði hann upp viðskiptaveldi í kringum einkareknar rafveitur. Líkt og Trump, studdi Willkie Demókrata framan af ævi sinni og hafði tröllatrú á Roosevelt þegar hann var fyrst kjörinn forseti. Stjórn Roosevelts fékk heimskreppuna í vöggugjöf og brást við með framkvæmdum sem áttu að skapa störf og auka framleiðni. Einna stærst í sniðum voru risavaxin virkjanaverkefni með byggingu stórra stífla og raforkuframleiðslu. Þegar fyrirtæki Willkies lentu í beinni samkeppni við risaorkuver New Deal-stefnu Roosevelts breyttust viðhorf hans ansi hratt. Willkie varð forystumaður samtaka einkareknu raforkuveranna sem áttu í stöðugu stríði við alríkisstjórnina í Washington næstu árin. Síðla árs 1939 ákvað Willkie að skila inn félagsskírteini sínu í Demókrataflokknum. Fáeinum vikum síðar gerðist hann Repúblikani og sendi út tilkynningu um að hann myndi ekki skorast undan tilnefningu flokksins til forsetaembættisins.Hárrétt tímasetning Willkie ákvað að taka ekki þátt í forkosningum Repúblikana heldur veðja á þrátefli milli helstu frambjóðenda þegar til flokksþingsins kæmi. Stríðið í Evrópu hjálpaði til því Willkie var talsmaður þess að Bandaríkin styddu Breta með öllum öðrum hætti en beinni stríðsþátttöku. Frakkar gáfust upp fyrir Þjóðverjum nánast í þann mund sem flokksþingið var sett. Willkie mætti til leiks sigurreifur og kunni að nýta sér fjölmiðla til hins ítrasta. Keppinautarnir höfðu varið mörgum mánuðum í að tryggja sér stuðning í forkosningum, en Willkie eyddi orku sinni í að hafa áhrif á skipuleggjendur flokksþingsins. Lykilræðumenn í dagskránni studdu framboð hans og á undraskjótum tíma tókst að sveigja stemninguna meðal þingfundargesta á þann veg að Willkie væri riddarinn á hvíta hestinum. Niðurstaða Repúblikana kom Roosevelt í opna skjöldu, enda hafði hann búist við að afstaðan til stríðsins í Evrópu yrði aðalmál kosninganna. Sú varð ekki raunin með kjöri Willkies enda frambjóðendurnir báðir með keimlíka stefnu – að styðja Breta með ráðum og dáð, en þó ekki þannig að bandarískir hermenn yrðu sendir á vígvöllinn. Ekki hafði Roosevelt þó fyrr unnið kosningarnar á grunni loforða um að dragast ekki inn í stríðið en hann hóf stríðsundirbúning af krafti. Pólitískt reynsluleysi hins óvænta forsetaefnis birtist með ýmsum hætti í baráttunni. Willkie var ekki orðvar og kom sér ítrekað í vandræði með glannalegum yfirlýsingum. Þannig lýsti hann því yfir á kosningafundi að hann myndi skipa nýjan ráðherra atvinnumála „…og það yrði svo sannarlega ekki kona!“ Var það lítt dulið skot á sitjandi ráðherra, Frances Perkins sem var um þær mundir eini kvenráðherrann í gjörvallri sögu Bandaríkjanna og féllu ummælin vægast sagt í grýttan jarðveg meðal kvenna. Í ljósi þessara verður árangur Willkies í kosningunum að teljast ásættanlegur, en hann fékk 45% atkvæða sem var meira en mótframbjóðendur Roosevelts í tveimur fyrri kosningum höfðu náð. Fjórum árum síðar sóttist hann eftir útnefningu Repúblikana á ný en hafði ekki árangur sem erfiði. Síðla árs 1944 lést Wendell Willkie einungis 52 ára að aldri. Hann hefur almennt hlotið nokkuð góð eftirmæli í sögunni og verður að teljast óvenjulegasta forsetaefni Repúblikana?… þar til nú.
Donald Trump Forsetakosningar í Bandaríkjunum Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið Kemur út úr skápnum tveimur árum eftir andlát sitt Lífið Enginn þreyir þorrann eins og Áslaug Arna Lífið Bellingham kominn með bandaríska kærustu Lífið Allt í einu orðin mamman sem missti barnið sitt Lífið Guinness-æðið sem gert hefur íslenska djammara að þjófum Lífið Sjónvarpsbarn komið í heiminn Lífið Ómerkilegir þættir um merkilega konu Gagnrýni Fann ástina og setur íbúðina á sölu Lífið Stærsta þorrablót landsins Lífið Ætla að halda Lífskviðuna þrátt fyrir andlát Ásgeirs í nótt Menning Fleiri fréttir Ætla að halda Lífskviðuna þrátt fyrir andlát Ásgeirs í nótt Katrín dustar rykið af visku sinni Anna Rós hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör Létu sig ekki vanta á frumsýningu Ungfrú Íslands Bókamarkaðurinn færir sig um set Troðfullt hús og standandi lófaklapp „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira