Innlent

Samningaviðræður um að borgin hýsi 110 hælisleitendur til viðbótar

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Reykjavíkurborg og Útlendingastofnun eru langt komnar í samningaviðræðum um að borgin hýsi 110 hælisleitendur til viðbótar við þá níutíu sem hún hýsir í dag. Ástand í húsnæðismálum hælisleitenda er slæmt og leitar Útlendingastofnun allra leiða til að bæta úr því.

Húsnæðismál hælisleitenda eru í ólestri en aldrei hafa jafnmargir sótt um vernd á einu ári hér á landi. Umsóknir á árinu er þegar yfir fimm hundruð.

Borgin og Útlendingastofnun funduðu um málið í gær og ganga samningaviðræður vel. Samningur verður líklegast undirritaður á næstu dögum.

„Við erum að vonast til að geta tekið við í okkar þjónustu væntanlega í kring um 100 manns á einhverjum tíma í viðbót við þá níutíu sem þegar eru í þjónustu,“ segir Anna Krisinsdóttir, mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar. Náist samningar muni borgarráð taka endanlega ákvörðun í málinu.

Borgin vinnur nú að því að finna húsnæði. „Við erum að leita logandi ljósi og höfum gert það undanfarnar vikur. Við leitum að ásættanlegu húsnæði,“ segir Anna.

Taki borgin við 110 hælisleitendum til viðbótar mun til þess koma í áföngum á næstu vikum og mánuðum en vonir standa til þess að borgin geti tekið við hluta hópsins í október.

Anna útskýrir að búsetuúrræðin verði um alla borg en ekki öll á einum stað. Hún segir mikinn vilja hjá borginni í að aðstoða Útlendingastofnun í húsnæðismálum hælisleitenda.

„Við erum kannski að axla okkar ábyrgð sem höfuðborg að taka hér vel á móti fólki. Ég er ekki viss um að almenningur verið mikið var við það að hér séu hundrað eða tvö hundruð hælisleitendur hér í þjónustu. Ég held að almenningur verði miklu frekar var við þá ferðamenn sem eru hér,“ segir Anna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×