Mannanafnanefnd hefur gefið leyfi fyrir kvenmannsnöfnunum Angelínu, Lunu, Tildru, Hofdísi og Eilíf, auk karlkynsnafnsins Eyjar.
Úrskurðir mannanafnanefndar voru kveðnir upp á föstudag, fjórum dögum áður en opinberlega greint var frá skilnaði Hollywood-parsins Angelínu Jolie og Brad Pitt. Brad, eða Bradley, er ekki á mannanafnaskrá.
Nefndin heimilaði einnig konu að taka upp kenningu til föður síns, Paul, en hún óskaði að eiginnafn föðurins yrði lagað að íslensku máli, Pálsdóttir.
Sömuleiðis samþykkti nefndin beiðni konu um að taka upp kenningu til föður síns, Andrzej, og að hún fengi að bera eftirnafnið Andradóttir. Jafnframt óskaði hún að eiginnafnið Katarzyna yrði lagað að íslensku máli, Katrína, sem nefndin samþykkti einnig.
