Marion Cotillard tjáir sig um skilnaðinn: „Þetta verða mín fyrstu og einu viðbrögð“
Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Brad Pitt og Marion Cotillard við tökur á nýjustu kvikmynd þeirra, Allied, sem frumsýnd verður í nóvember.vísir/getty
Franska leikkonan Marion Cotillard hafnar því alfarið að hafa haldið við Brad Pitt á meðan tökum á kvikmyndinni Allied stóð, líkt og ýmsir fjölmiðlar hafa haldið fram að undanförnu. Hún segir það afar sorglegt að hafa verið dregin inn í skilnað Pitt og Jolie og óskar þeim alls hins besta.
Cotillard birti færslu á Instagram þar sem hún segir þetta verða sín fyrstu og einu viðbrögð við þessum fréttum, sem hún líkir við hringiðu. Hún segist ekki vön því að bregðast við fréttum sem þessum, né heldur taka þeim alvarlega, en að staðan sem upp sé komin sé farin að hafa áhrif á hennar nánustu.
„Fyrir mörgum árum hitti ég lífsförunaut minn, faðir sona minna og barnsins sem við eigum von á. Hann er ástin mín, minn besti vinur og sá eini sem ég þarf í mitt líf,“ segir Cotillard. Hún þakkar þeim sem hafa stutt hana fyrir og á sama tíma óskar hún þeim sem hafa sett sig í dómarasæti velfarnaðar og skjótum bata.
„Að lokum óska ég þess innilega að Angelina og Brad, sem ég ber mikla virðingu fyrir, finni frið á þessum erfiðu stundum,“ ritar leikkonan, bæði á ensku og frönsku.
Fjölmargar kenningar hafa verið uppi um ástæðu skilnaðar Pitt og Jolie, sem vafalítið eru ein frægustu hjón heims. Þær eiga það hins vegar allar sameiginlegt að dregin hefur verið upp nokkuð dökk mynd af Brad Pitt. Fjölmiðlar ytra hafa meðal annars sagt að Jolie hafi komist á snoðir um framhjáhald Pitt með Cotillard, en kvikmynd þeirra verður frumsýnd í nóvember næstkomandi. Á Jolie að hafa ráðið sér einkaspæjara til að njósna um eiginmann sinn á setti vegna gruns um framhjáhald. Einkaspæjarinn á að hafa staðfest grun Jolie.
Þá hefur verið greint frá því að Pitt eigi erfitt með skap sitt og að Jolie telji að það skapi hættu fyrir börnin þeirra sex. Hann er jafnframt sagður hafa reykt kannabis og drukkið áfengi í óhófi, svo fátt eitt sé nefnt.
Stiklu úr kvikmyndinni Allied má sjá hér fyrir neðan.