Bandaríkin „Ég hef ákveðið að á kjördag muni ég kjósa frambjóðanda Repúblikana, Donald Trump,“ segir í tilkynningu sem bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Ted Cruz sendi frá sér í gær. Cruz var sá sem næst komst því að sigra Trump í forvali Repúblikana og andaði köldu þeirra á milli, meðal annars vegna uppnefnisins „Lyga-Ted“ sem Trump hafði um Cruz.
Athygli vakti á landsþingi Repúblikana í júlí að Cruz lýsti ekki yfir stuðningi við frambjóðandann í ræðu sinni. Uppskar hann baul og öskur fyrir það.
Ástæðu stuðningsyfirlýsingarinnar sagði Cruz tvíþætta. Annars vegar loforð sem hann gaf í upphafi forvalsins um að styðja sigurvegara þess og hins vegar þá að Demókratinn Hillary Clinton mætti aldrei verða forseti.
