Sport

Fékk 57 milljónir fyrir 134 sekúndna bardaga

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Punk eftir niðurlæginguna um helgina.
Punk eftir niðurlæginguna um helgina. vísir/getty
Fjölbragðaglímukappinn CM Punk fór í búrið hjá UFC um síðustu helgi og var niðurlægður. Hann hló þó alla leið í bankann.

Punk fékk nefnilega 57 milljónir króna fyrir þær 134 sekúndur sem bardaginn gegn Mickey Gall stóð yfir. Það gerir rúmlega 400 þúsund krónur fyrir hverja sekúndu.

Mikið var látið með komu þessa 37 ára gamla kappa í UFC. Fjölbragðaglíma er mjög vinsæl í Bandaríkjunum og UFC sá fyrir sér góða tekjulind í því að fá Punk í íþróttina þó svo hann hefði engan bakgrunn í bardagaíþróttum. Hann var eingöngu með leiklistarbakgrunn úr fjölbragðaglímunni.

Það sást berlega í bardaganum gegn Gall. Punk óð eins og naut í flagi að Gall sem tók hann strax niður. Þar pakkaði hann Punk saman sem að lokum gafst upp. Punk náði inn hálfu höggi í bardaganum.

Ekki er búist við því að hann keppi aftur í UFC en sjálfur segist hann ætla að halda áfram að berjast en það verður annars staðar en í UFC. Þetta var skrípaleikur.

Gall fékk aðeins 3,5 milljónir króna í sinn hlut.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×