Við fylgdumst með þar sem verið var að landa 650 tonnum úr nýja Hoffellinu en það lá utan á því gamla. Á bryggjunni hittum við skipstjórann, Berg Einarsson.
„Það er búið að vera alveg meiriháttar gangur á þessu síðastliðinn mánuð, stefnir bara í metvertíð hjá okkur hérna á Fáskrúðsfirði,” segir Bergur.
Hoffellið hefur verið að koma með afla að landi á þriggja til fjögurra daga fresti og því hafa menn í vinnslunni þurft að hafa sig alla við til að hafa undan. Megnið af makrílnum fer í flökun og frystingu fyrir Evrópumarkað.
Grétar Arnþórsson, verkstjóri hjá Loðnuvinnslunni, segir að frá 8. ágúst sé búið að vinna sleitulaust á vöktum allan sólarhringinn, dag og nótt.
„Í mánuð án þess að stoppa. Aldrei matur og aldrei kaffi,” segir Grétar og hlær.
-Er þá ekki fólkið að leka niður?
„Nei. Það hefur orðið að leggja aðeins af.”
-Er þá ekki stemmning hjá fólkinu?
„Nei. Þetta er allt of erfitt til þess,” svarar Grétar.

„Það er bara aukinn kvóti og veiðar ganga mjög vel og vinnslan enn betur. Það gengur alveg meiriháttar vel í landi að vinna,” segir Bergur skipstjóri.
Hann segir tíðarfar hafa verið með eindæmum gott og stutt að sækja makrílinn út af Austfjörðum en hann hefur verið að veiðast í kringum Hvalbak.
„Bara stutt að fara og verið mjög góð veiði síðastliðinn mánuð.”
Fyrir 160 starfsmenn Loðnuvinnslunar á Fáskrúðsfirði eru þetta uppgrip.
„Jú, ég held að þetta séu alveg ágætis tekjur,” segir Grétar. Mikið hafi verið um skólakrakka í vinnu þar til skólinn byrjaði. Þetta hafi verið mjög gott hjá þeim og lítill skattur.

„Þetta eru mest útlendingar, allar þjóðir. Þegar ég var að telja hér um daginn þá voru níu þjóðir hérna inni,” segir verkstjórinn.
Og sjómennirnir á Hoffellinu kætast.
„Seinasti mánuður var bara metmánuður hjá okkur. Svo það eru bara allir í góðu skapi,” segir skipstjórinn á Hoffelli SU-80.
Fjallað var um franska bæinn Fáskrúðsfjörð og starfsemi Loðnuvinnslunnar í þættinum „Um land allt" á Stöð 2 fyrir tveimur árum.