Aron Jóhannsson gerði sér lítið fyrir og skoraði fimm mörk þegar Werder Bremen vann 8-1 sigur á Kickers Emden í æfingaleik í kvöld.
Aron er smám saman að komast aftur á ferðina eftir erfið meiðsli sem héldu honum frá keppni stóran hluta af síðasta tímabili.
Aron var í byrjunarliði Bremen þegar liðið steinlá, 6-0, fyrir Bayern München í 1. umferð þýsku úrvalsdeildinni fyrir viku. Og miðað við frammistöðuna í kvöld heldur hann væntanlega stöðu sinni þegar Bremen mætir Augsburg í fyrsta leik eftir landsleikjahlé.
Aron kom til Bremen frá AZ Alkmaar í fyrra og skoraði tvö mörk í sex leikjum á síðasta tímabili áður en hann meiddist.
