Hillary Cinton, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, segist hafa áhyggjur af meintum afskiptum stjórnvalda í Rússlandi af kosningabaráttunni í Bandaríkjunum. Fregnir hafa borist af því að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á baráttuna með tölvuárásum. Þar á meðal árásinni á tölvukerfi Demókrataflokksins þar sem tölvupóstum var lekið á netið.
Clinton setti einnig út á andstæðing sinn Donald Trump og ummæli hans þegar hann hvatti yfirvöld í Rússlandi til að gera Clinton að skotmarki sínu. Hún sagði þjóðaröryggisstofnanir í Bandaríkjunum vera sammála um að leyniþjónusta Rússlands hefði framkvæmt árásina gegn tölvukerfi flokksins.
„Aldrei áður hefur erlent ríki haft áhrif á kosningaferli okkar og við höfum aldrei áður séð frambjóðanda hvetja Rússa til að gera tölvuárásir gegn öðrum frambjóðanda.“
Washington Post hefur sagt frá því að yfirvöld í Bandaríkjunum hafi til rannsóknar meintar aðgerðir Rússa í Bandaríkjunum. Aðgerðir þeirra eru sagðar miða að því að draga úr trúverðugleika kosninganna og stofnana Bandaríkjanna. Þar að auki eru þeir sagðir dreifa fölskum upplýsingum.

