Hillary Cinton, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, segist hafa áhyggjur af meintum afskiptum stjórnvalda í Rússlandi af kosningabaráttunni í Bandaríkjunum. Fregnir hafa borist af því að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á baráttuna með tölvuárásum. Þar á meðal árásinni á tölvukerfi Demókrataflokksins þar sem tölvupóstum var lekið á netið.
Clinton setti einnig út á andstæðing sinn Donald Trump og ummæli hans þegar hann hvatti yfirvöld í Rússlandi til að gera Clinton að skotmarki sínu. Hún sagði þjóðaröryggisstofnanir í Bandaríkjunum vera sammála um að leyniþjónusta Rússlands hefði framkvæmt árásina gegn tölvukerfi flokksins.
„Aldrei áður hefur erlent ríki haft áhrif á kosningaferli okkar og við höfum aldrei áður séð frambjóðanda hvetja Rússa til að gera tölvuárásir gegn öðrum frambjóðanda.“
Washington Post hefur sagt frá því að yfirvöld í Bandaríkjunum hafi til rannsóknar meintar aðgerðir Rússa í Bandaríkjunum. Aðgerðir þeirra eru sagðar miða að því að draga úr trúverðugleika kosninganna og stofnana Bandaríkjanna. Þar að auki eru þeir sagðir dreifa fölskum upplýsingum.
Hefur áhyggjur af meintum afskiptum Rússa
Samúel Karl Ólason skrifar
