Tveir einstaklingar voru handteknir vegna ölvunar við tónleikasvæðið í Kórnum í Kópavogi í gærkvöldi. Þeir fengu að sofa úr sér í fangageymslum en annars fór allt vel fram samkvæmt lögreglu.
Þóra Jónasdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að allt hafi annars farið mjög vel fram. Vel hafi gengið að ferja fólk frá tónleikasvæðinu, en talið er að um nítján þúsund manns hafi verið þar samankomnir til að bera poppstjörnuna Justin Bieber augum í gærkvöldi.
„Það var allt til fyrirmyndar bara. Alls ekki neitt sérstakt sem stóð upp úr sem aflaga fór. Það gekk allt mjög vel. Strætóarnir fljótir að ferja fólkið til baka,“ segir Þóra.
