Ian Jeffs og Alfreð Elías Jóhannsson munu stýra liði ÍBV í Pepsi-deild karla út tímabilið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ÍBV.
Þeir félagar tóku tímabundið við Eyjaliðinu eftir að Bjarni Jóhannsson hætti óvænt. Nú er ljóst að Jeffs og Alfreð klára tímabilið en þeirra bíður það verkefni að bjarga ÍBV frá falli.
Jeffs verður áfram þjálfari kvennaliðs ÍBV og Alfreð heldur áfram að stýra 2. flokki karla.
Jeffs og Alfreð hafa stýrt ÍBV í tveimur leikjum; tapi gegn Víkingi R. og jafntefli gegn Þrótti.
ÍBV er í 10. sæti Pepsi-deildarinnar með 18 stig, fjórum stigum frá fallsæti. Næsti leikur ÍBV er gegn KR á útivelli 10. september næstkomandi.

