Viðburðarríkum degi er lokið hjá Inter á Ítalíu þar sem að skipt var um knattspyrnustjóra. Roberto Mancini var rekinn og Hollendingurinn Frank de Boer ráðinn í hans stað.
„Ég er mjög ánægður með að vera kominn hingað. Sjáumst vonandi fljótt,“ sagði De Boer á Twitter-síðu Inter í dag en þessi 46 ára kappi hætti störfum sem stjóri Ajax fyrr í sumar. Hann hafði verið orðaður við bæði Southampton og Everton.
Mancini tók öðru sinni við Inter á ferlinum árið 2014 en sögusagnir höfðu verið á kreiki um að hann væri á útleið hjá félaginu.
Inter fékk nýjan meirihlutaeiganda á sunnudag þegar kínverskt fyrirtæki keypti nærri 70 prósenta hlut í félaginu á samtals 750 milljón evra, jafnvirði nærri 100 milljarða króna.
