Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra þarf tíma til að meta afstöðu stjórnarandstöðunnar til dagsetningar alþingiskosninganna í haust. Þetta segir Benedikt Sigurðsson, aðstoðarmaður Sigurðar Inga.
Leitað var eftir viðbrögðum forsætisráðherra í kjölfar ummæla þingflokksformanna stjórnarandstöðunnar í Fréttablaðinu í gær um að óvissa um tímasetningu boðaðra kosninga myndi trufla þingstörfin.
Formenn flokkanna ætla að funda áður en Alþingi kemur saman til að ræða hvernig knýja megi fram dagsetningu á alþingiskosningarnar.
Haft var eftir Oddnýju G. Harðardóttur, formanni Samfylkingarinnar, að þingstörfin gætu ekki gengið eðlilega fyrr en búið væri að ákveða kjördag.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sagði flokkinn byrjaðan að stilla upp listum en að skortur á dagsetningu geri uppstillingarstarfið erfitt. „Það er ekkert sérlega gaman að biðja fólk um að gefa kost á sér í kosningum sem það veit ekki hvort eða hvenær verða haldnar.“
Allir stjórnmálaflokkarnir eru byrjaði að undirbúa kosningar í haust þrátt fyrir óvissu um dagsetningu þeirra.
Bjarni vildi ekki bregðast við ummælum þingflokksformanna stjórnarandstöðunnar en hann hefur ítrekað sagt að kosið verði í haust.
Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 9. ágúst 2016.

