Fjölmiðlar ytra hafa komist yfir samantekt úr ræðu Trump, sem hann mun flytja á síðasta degi flokksþings Repúblikana í Cleveland í Ohio.
Fundurinn hófst um klukkan hálf tólf en hægt er að fylgjast með honum í beinni útsendingu hér að neðan.
Í ræðu sinni mun Trump fjalla um skotárásir í Bandaríkjunum eins og þegar sex lögregluþjónar voru skotnir til bana í Dallas í byrjun mánaðarins. Þó mun hann ekki fara djúpt í málefnið.
„Ég er með skilaboð til ykkar allra. Glæpirnir og ofbeldi sem hrjáir þjóð okkar í dag mun enda á næstunni.“
Þá mun Trump ræða um Hillary Clinton og segja að Bandaríkin séu óöruggari eftir að hún var utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Ræða hans mun að miklu leyti leggja línurnar fyrir kosningabaráttu hans næstu mánuði.
Trump mun halda ræðu sína undir lok kvöldsins í Ohio.
Trump olli miklu fjaðrafoki í dag þegar hann sagði að yrði hann kjörinn forseti væri mögulegt að hann myndi ekki standa við skuldbindingar Bandaríkjanna gagnvart NATO. Hann myndi ekki endilega koma Eystrasaltslöndunum til varnar ef Rússar myndi gera innrás þar.