Grindavík og Huginn skildu jöfn, 2-2, í síðasta leik kvöldsins í Inkasso-deildinni.
Leiknum seinkaði talsvert vegna bilunar í fluggagnakerfi í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík. Hann hófst ekki fyrr en klukkan 20:40.
Grindvíkingar byrjuðu leikinn betur og á 16. mínútu kom Björn Berg Bryde þeim í forystu. Hún entist þó aðeins í átta mínútur því á 24. mínútu jafnaði Pétur Óskarsson metin með skalla eftir aukaspyrnu Ingólfs Árnasonar.
Aftur liðu átta mínútur á milli marka en á 32. mínútu skoraði Jaime Jornet Guijaarro fallegt mark og kom gestunum í 1-2.
Grindvíkingar sóttu stíft í seinni hálfleik og þeir fengu vítaspyrnu á 72. mínútu þegar Alexander Veigar Þórarinsson var felldur í teignum. Andri Rúnar Bjarnason tók spyrnuna en Atli Gunnar Guðmundsson varði frá honum.
Heimamenn sóttu án afláts síðustu mínúturnar og pressan bar loks árangur á þriðju mínútu uppbótartíma þegar Alexander Veigar skallaði fyrirgjöf Gunnars Þorsteinssonar í netið. Þetta var áttunda mark Alexanders Veigars í sumar en hann er markahæstur í Inkasso-deildinni. Lokatölur 2-2 í hörkuleik.
Grindavík er enn í 2. sæti deildarinnar, nú með 25 stig, fjórum stigum á eftir toppliði KA sem tapaði fyrir Haukum í kvöld.
Huginn er hins vegar í ellefta og næstneðsta sæti deildarinnar með 10 stig, fjórum stigum frá öruggu sæti.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá fótbolta.net og úrslit.net.
