Breiðablik heldur toppsætinu eftir 0-3 sigur á botnliði ÍA.
Það tók Íslandsmeistarana 68 mínútur að sigrast á Skagavörninni en Málfríður Erna Sigurðardóttir skoraði þá sitt fyrsta mark í sumar.
Fanndís Friðriksdóttir bætti öðru marki við úr vítaspyrnu á 85. mínútu og þremur mínútum síðar skoraði Guðrún Arnarsdóttir þriðja og síðasta mark Blika. Báðir miðverðir Breiðabliks komust í því á blað í leiknum.
Breiðablik er með 20 stig á toppnum, einu stigi á undan Stjörnunni sem vann 4-2 sigur á KR á heimavelli.

Einni færri komust heimakonur yfir á 36. mínútu þegar Donna Kay Henry kom boltanum framhjá Hrafnhildi Agnarsdóttur í marki KR.
Staðan var 1-0 í hálfleik en strax eftir fimm mínútna leik í seinni hálfleik skoraði Henry sitt annað mark í leiknum og sitt fimmta í sumar.
KR-ingar gáfust ekki upp og Anna Birna Þorvarðardóttir minnkaði muninn í 2-1 á 67. mínútu. Harpa Þorsteinsdóttir skoraði þriðja mark Stjörnunnar á 74. mínútu en aðeins fimm mínútum síðar skoraði Anna Birna öðru sinni og hleypti mikilli spennu í leikinn.
En Harpa sá til þess að Stjörnukonur fengju öll þrjú stigin þegar hún gerði sitt annað mark níu mínútum fyrir leikslok. Harpa er því komin með 11 mörk í átta leikjum í deildinni.
KR er í níunda og næstneðsta sæti deildarinnar með sex stig, einu stigi frá öruggu sæti. ÍA er rótfast við botninn með einungis eitt stig.