Valur vann sinn þriðja leik í röð í Pepsi-deild kvenna þegar liðið fékk Selfoss í heimsókn í kvöld. Lokatölur urðu 5-0, Val í vil en þetta var fyrsti sigur Valskvenna á Selfyssingum frá haustinu 2013.
Valur fór hægt af stað í Pepsi-deildinni en hefur nú unnið þrjá leiki í röð með markatölunni 12-1. Valskonur eru í 3. sæti deildarinnar með 17 stig, þremur stigum á eftir toppliði Breiðabliks.
Margrét Lára Viðarsdóttir og Arna Sif Ásgrímsdóttir skoruðu tvö mörk hvor fyrir Val í kvöld og Dóra María Lárusdóttir eitt.
Margrét Lára er þar með komin með sjö mörk í Pepsi-deildinni en hún hefur skorað fimm mörk í síðustu þremur leikjum Vals.
Mörkin úr leiknum má sjá í spilaranum hér að ofan.
