Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á frá Hellu að Vík ásamt undanförum af höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út rétt fyrir klukkan tvö í dag vegna einstaklings sem lenti í slysi á Sólheimajökli.
Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur einnig verið kölluð út og fer á staðinn með fjallabjörgunarfólk af höfuðborgarsvæðinu og sveitir á Suðurlandi senda bíla með mannskap og aðrar nauðsynlegar bjargir að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörg.
Nánast á sama tíma kom annað útkall þar sem sveitir frá Hveragerði, Selfossi, Eyrarbakka og Þorlákshöfn voru kallaðar út vegna konu sem slasaðist á fæti við laugarnar í Reykjadal og er björgunarfólk farið af stað á slysstað.
Þá kom þriðja útkallið á mjög svipuðum tíma þegar björgunarsveitin Tindur á Ólafsfirði var kölluð út vegna konu sem féll aftur fyrir sig af hestbaki og slasaðist á fæti. Björgunarfólk er einnig lagt af stað til að sinna þessu útkalli.
