Atli Guðnason, sóknamaður FH, reyndist vera rifbeinsbrotinn en hann fór í sjúkrabíl af Hásteinsvelli á lokamínútum leiks FH og ÍBV í gær.
Atli lenti illa eftir tæklingu á lokamínútum leiksins og þurfti að bera hann af velli og beint upp í sjúkrabíl. Var hann klipptur úr treyjunni þar sem hann gat ekki klætt sig úr henni upp á eigin spýtur.
Atli staðfesti í samtali við mbl.is í dag að hann væri rifbeinsbrotinn en að hann vonaðist til að vera klár í slaginn eftir tvær vikur.
Atli missir því af leik FH gegn Dundalk í undankeppni Meistaradeildar Evrópu ásamt leiknum gegn ÍBV í undanúrslitum Borgunarbikarsins en hann ætti að vera klár í slaginn fyrir leikinn gegn KR þann 8. ágúst.

