Frakkar sýndu snilli sínum í sóknarleiknum og þeir Olivier Giroud, Paul Pogba, Dimitri Payet og Antoine Griezmann komu franska liðinu í 4-0 á fyrstu 45 mínútum leiksins.
Þetta er í fyrsta sinn í tæp tólf ár sem íslenska landsliðið fær á sig fjögur mörk í fyrri hálfleik en það hafði ekki gerst síðan 13. október 2004.
Íslenska liðið tapaði þá 4-1 á móti Svíum á Laugardalsvellinum í undankeppni HM í Þýskalandi sem fór síðan fram sumarið 2006.
Svíar komust í 4-0 í fyrri hálfleiknum í þessum leik með mörkum þeirra Henrik Larsson (2 mörk), Marcus Allbäck og Christian Wilhelmsson.
Henrik Larsson skoraði fyrsta markið á 23. mínútu en fyrsta mark Frakka í dag skoraði Olivier Giroud strax á 12. mínútu. Paul Pogba var búinn að skora annað mark á 19. mínútu en í þessum Svíaleik fyrir tólf árum skoraði Marcus Allbäck á 25. mínútu.
Lars Lagerbäck, annar þjálfara íslenska liðsins í dag, kom heldur við sögu þegar íslenska landsliðið fékk síðast á sig fjögur mörk í fyrri hálfleik.
Lagerbäck var nefnilega þjálfari þessa sænska liðs sem fór svona illa með það íslenska í fyrri hálfleik í umræddum leik á Laugardalsvellinum í október 2004.
Eiður Smári Guðjohnsen var fyrirliði íslenska liðsins í leiknum og skoraði eina mark síðari hálfleiks á 66. mínútu.
#OJOALDATO - Es la peor derrota de Islandia al descanso en los últimos 12 años (desde un 0-4 contra Suecia el 13.10.2004 que terminó 1-4).
— MisterChip (Alexis) (@2010MisterChip) July 3, 2016