Sveitin er ansi skemmtileg fyrir ýmsar sakir, til dæmis að spila poppaða flamengótónlist. Og þrátt fyrir að vera franskir að upplagi, passa meðlimir hennar upp á að spænskur og andalúsískur hreimur séu allsráðandi. Þannig halda þeir þéttingsfast í ræturnar, sígaunaræturnar. Nafn sveitarinnar ætti þar með að útskýra sig nokkuð sjálft.

„Þetta verður skemmtilegt. Hljómsveitin er ansi litrík, en Manolo, aðaltýpan, kemur og með honum sígaunavinir hans. Hljómsveitarskipanin hefur verið ansi laus í reipum en þetta eru þrjár fjölskyldur frænda og tengslin þeirra sem hafa verið sundur og saman í gegnum feril sveitarinnar. Það hefur sannarlega gengið á ýmsu,“ útskýrir hann og skellir upp úr.
Sveitin sendi frá sér sína fyrstu plötu árið 1982 og í heildina hafa sígaunakóngarnir sent frá sér heilar nítján plötur. Sú síðasta kom út árið 2006 svo ekki er óeðlilegt að sveitin hafi ýmsa fjöruna sopið yfir þetta drjúga tímabil. Túrar sveitarinnar hafa verið nokkuð reglulegir, með nokkuð reglulegum pásum.
Nú hefur sveitin hins vegar sölsað undir sig Evrópu og loks er komið að því að endurnýja gömul kynni við íslenska aðdáendur. Aðspurður um hver markhópurinn sé í þetta skiptið segist hann telja líklegt að áhorfendahópurinn eldist vel með sveitinni. Það sé því kannski ekki að tilhæfulausu sem tónleikarnir fari fram í merktum sætum í Hörpu.
„Fólk getur þá setið og notið sín en staðið upp og hrist sig eftir þörfum. Þetta er fullkomin leið til að loka sumrinu og það verður auðvitað mjög flott að sjá þá í þessu frábæra húsi sem Harpa er. Hún hentar fullkomlega í þetta,“ segir Þorsteinn og segist afar spenntur fyrir að sjá hvernig viðtökur sveitin fái.