KA vann Fjarðabyggð með tveimur mörkum gegn engu í 9. umferð Inkasso-deildarinnar í kvöld.
Þetta var fjórði 2-0 sigur KA-manna í röð en þeir sitja á toppi deildarinnar með 22 stig.
Ásgeir Sigurgeirsson hefur verið sjóðheitur að undanförnu og Húsvíkingurinn var enn og aftur á skotskónum í kvöld. Hann kom KA yfir strax á 5. mínútu en hann hefur nú skorað í fjórum leikjum í röð.
Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði seinna markið úr vítaspyrnu á lokamínútunni og gulltryggði sigur KA-manna sem eru á góðri siglingu þessa dagana.
Fjarðabyggð er í 10. sæti deildarinnar með sjö stig en liðið hefur ekki unnið frá því í 2. umferðinni.
