Niall McGinn, framherji Aberdeen og norður-írska landsliðsins, fær ekki mikið sumarfrí en hann er nýkominn heim frá Evrópumótinu í Frakklandi.
Niall McGinn og félagar hans í norður-írska landsliðinu duttu út úr sextán liða úrslitum á laugardaginn var en fyrsti leikur nýs tímabils hjá skoska liðinu Aberdeen er í kvöld.
Derek McInnes, knattspyrnustjóri Aberdeen, hefur ýjað að því að Niall McGinn komi við sögu þegar Aberdeen mætir Fola Esch frá Lúxemborg í forkeppni Evrópudeildarinnar.
Niall McGinn er 28 ára gamall og hefur verið hjá Aberdeen frá árinu 2012.
Spili Niall McGinn leikinn á móti Fola Esch þá myndi það þýða það að 2016-17 tímabilið hjá honum færi af stað aðeins fimm dögum eftir að 2015-16 tímabilinu hans lauk.
Niall McGinn kemur reyndar ekki útkeyrður eftir Evrópumótið því hann spilaði aðeins í 38 mínútur á EM. McGinn kom inn á sem varamaður í þremur síðustu leikjunum og náði að skora í 2-0 sigrinum á Úkraínu.
Niall McGinn er mikilvægur fyrir Aberdeen-liðið er hann var með 12 mörk og 15 stoðsendingar í 44 leikjum í öllum keppnum á síðasta tímabili.
Hann hefur líka skilað sínu í forkeppni Evrópudeildarinnar undanfarin tvö ár en kappinn var með 4 mörk og 4 stoðsendingar í 12 leikjum í forkeppninni tímabilin 2014-15 og 2015-16.
Komist Aberdeen áfram í 2. umferð forkeppninnar mætir liðið sigurvegaranum úr leikjum Ventspils frá Lettland og Víkingi úr Götu frá Færeyjum.

