Körfubolti

Hildur Sigurðardóttir þjálfar Blikakonur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hildur Sigurðardóttir ásamt Sigríði H. Kristjánsdóttur, formanni körfuknattleiksdeildar Breiðabliks.
Hildur Sigurðardóttir ásamt Sigríði H. Kristjánsdóttur, formanni körfuknattleiksdeildar Breiðabliks. Mynd/Heimasíða Breiðabliks
Hildur Sigurðardóttir, leikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi, hefur verið ráðin sem þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Breiðabliki. Hildur mun stýra Blikakonum í 1. deildinni á komandi tímabili.

Hildur gerði þriggja ára samning við Breiðablik og hefur störf á morgun 1. júlí. Breiðablik segir frá þessu á heimasíðu sinni.

Hildur lagði skóna á hilluna vorið 2015 eftir að hafa unnið tvo Íslandsmeistaratitla með uppeldisfélagi sínu Snæfelli. Hún hafði áður orðið þrisvar sinnum Íslandsmeistari með KR.

Hildur hefur leikið flesta leiki fyrir íslenska kvennalandsliðið frá upphafi eða 79 talsins en síðustu leiki sína með liðinu spilaði hún sumarið 2014.

Hildur er þriðja stigahæsti leikmaður efstu deildar kvenna frá upphafi og engin í karla né kvennaflokki hefur gefið fleiri stoðsendingar í efstu deild hér á landi.

Hildur var kosin besti leikmaður deildarinnar tvö síðustu tímabil sín en hún hlaut þau verðlaun alls fjórum sinnum á ferlinum.

Hildur lék með ÍR, KR, Grindavík og Snæfelli í efstu deild á Íslandi og þá var hún einnig atvinnumaður í Svíþjóð. Hún hefur því öðlast gríðarlega reynslu á frábærum ferli sínum.

Blikar höfðu áður tilkynnt að Lárus Jónsson myndi þjálfa kvennalið Breiðabliks en hann mun nú einbeita sér alfarið að þjálfun meistaraflokks karla, ásamt því að taka að sér fleiri verkefni er varða starf deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×