Heimir Guðjónsson, þjálfari Íslandsmeistara FH og núverandi toppliðs Pepsi-deildarinnar, verður gestur í Sumarmessunni í kvöld þar sem fjallað verður um EM í Frakklandi og Ameríkukeppnina í Bandaríkjunum.
Hörður Magnússon, sér um Sumarmessuna í kvöld og fær hann til sín þá Heimi Guðjónsson og FIFA-dómarann Gunnar Jarl Jónsson.
Heimir og Gunnar Jarl hafa nú ekki alltaf verið sammála þegar Gunnar Jarl er að dæma hjá FH-liðinu og það verður því fróðlegt að sjá hvort þeir sjái leikina á EM sömu augum.
Það verður fjallað um leikina í sextán liða úrslitum Evrópumótsins í Frakklandi þar á meðal leik Íslands og Englands sem fer fram í Nice á morgun.
Pólland, Wales og Portúgal komust áfram í átta liða úrslitin í gær og stórlið Frakklands og Þýskalands kláruðu sína leiki í dag. Lokaleikur dagsins er síðan á móti Ungverjalands og Belgíu.
Strákarnir ætla líka að skoða úrslitaleik Ameríkukeppninnar sem fer fram í kvöld en þar mætast Argentína og Síle. Bæði lið hafa spilað frábæran fótbolta á mótinu og þar gæti Lionel Messi náð langþráðum titli með argentínska landsliðinu.
Sumarmessan hefst klukkan 22.00 og er á Stöð 2 Sport. Úrslitaleikur Argentínu og Síle hefst síðan á miðnætti.
