Innlent

Virtu ekki fornan sið um kirkjugrið

Kristjana Björg Gunnarsdóttir skrifar
Kristín Þórunn Tómasdóttir sóknarprestur Laugarneskirkju segir kerfið þarfnast endurskoðunar.
Kristín Þórunn Tómasdóttir sóknarprestur Laugarneskirkju segir kerfið þarfnast endurskoðunar. Fréttablaðið/GVA
Lögregla flutti tvo hælis­leitendur, Majed og Ali Nasir, sem höfðu leitað skjóls í Laugarneskirkju með valdi til Noregs í gærmorgun. „Þetta var erfið stund og lét engan ósnortinn sem tók þátt,“ segir Kristín Þórunn Tómasdóttir, sóknarprestur í Laugarneskirkju.

Umsóknir mannanna voru afgreiddar af hálfu Útlendingastofnunar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar því norsk yfirvöld höfðu þegar móttekið umsóknir þeirra um hæli. Útlendingastofnun sendi frá sér yfirlýsingu og sagði norsk yfirvöld hafa gengist við ábyrgð sinni. Ekkert benti til þess að mennirnir fengju ekki réttláta meðferð í Noregi.

Umsækjendurnir kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála sem staðfesti niðurstöðu stofnunarinnar. Úrskurðum kærunefndar var ekki skotið til dómstóla.

Skjólið var veitt í Laugarneskirkju með vilyrði biskupsembættisins og gripið til þessa úrræðis í von um að lögregla myndi virða forna siði um kirkjugrið.

„Við vitum núna að við stöðvum ekki brottvísanir með þessum hætti,“ segir Kristín. Þrátt fyrir það þurfi að taka kerfið til gagngerrar endurskoðunar. „Stjórnvöld verða að hætta að skýla sér á bak við Dyflinnarreglugerðina í stað þess að veita hverjum einstaklingi efnislega meðferð og þannig sýna honum þá virðingu sem hann á skilið,“ segir Kristín. 

Stundin birti myndband af brottflutningnum í Laugarneskirkju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×