Í dag er frumsýnt nýtt myndband sem leikhópurinn Kriðpleir og Óskar Kristinn Vignisson hafa gert við lag Snorra.
Í myndbandinu er fylgst með sjálfsstyrkingarnámskeiði sem leikhópurinn Kriðpleir býður upp á fyrir fólk í atvinnuleit.
Meðlimir Kriðpleirs leika allir í myndbandinu, en þeir eru Árni Vilhjálmsson, Friðgeir Einarsson, Ragnar Ísleifur Bragason, auk Bjarna Jónssonar, leikskálds. Þar fyrir utan koma margir öndvegismenn fram í aukahlutverkum, t.a.m. Elísabet Indra Ragnarsdóttir, listrænn stjórnandi Mengis, Albert Halldórsson, leikari, Sigrún Hlín Sigurðardóttir, myndlistamaður, Þórir Bogason, þúsundþjalasmiður, Margrét Sif Sigurðardóttir, nemi, og Þórir Guðjónsson, framherji Fjölnis í Pepsi-deildinni.
Óskar Kristinn er myndlistarmaður og hefur getið sér gott orð upp á síðkastið fyrir myndbandagerð. Á næstu vikum verður frumsýnt tónlistarmyndband sem hann gerði fyrir hljómsveitina Ó ó með Örn Eldjárn í broddi fylkingar.
Annað kvöld kl. 21 eru tónleikar með Snorra og hljómsveit hans á Kexinu þar sem leikin verða fleiri lög af væntanlegri plötu.