Innlent

Húsbílafólk rekið af bílastæði á Höfn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögreglumenn á Höfn stóðu vaktina á bílastæðinu við sundlaugina um helgina.
Lögreglumenn á Höfn stóðu vaktina á bílastæðinu við sundlaugina um helgina. Vísir
Erlendum ferðamönnum á húsbíl, sem hugðist leggjast til næturhvílu á bílastæðinu við sundlaugina á Höfn í Hornafirði, var gert að víkja þaðan af lögreglu. Þetta kemur fram í uppgjörsskýrslu Lögreglunnar á Suðurlandi. Þar segir að það sé óheimilt samkvæmt lögreglusamþykkt að leggja á staðnum. 

Fimm ökumenn bifhjóla féllu á bifhjólum sínum í þolaksturskeppni sem haldin var í landi Ásgarðs í Skaftárhreppi á tímabilinu frá klukkan 12 til 18 á laugardag. Atvikin áttu sér stað á mismunandi tímum í keppnisbraut. Þrír voru fluttir með sjúkrabifreið á sjúkrastofnun. Allir reyndust með beinbrot. Einn var fluttur með þyrlu á Landspítala. Hann var útskrifaður eftir rannsókn þar. Fimmti hlaut höfuðhögg og vankaðist. Hann var fluttur á heilsugæslustöðina á Kirkjubæjarklaustri til skoðunar.

Alvarlegt umferðarslys varð á Suðurlandsvegi á vegarkafla við Þjóðólfshaga um hádegi á þriðjudag. Ökumaður jepplings missti stjórn á bifreiðinni sem valt nokkrar veltur. Auk ökumanns voru tveir farþegar í bifreiðinni. Öll þrjú voru flutt með þyrlu á slysadeild Landspítala. Þar kom í ljós að ökumaður var hálsbrotinn en farþegar með minni háttar áverka. Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi fer með rannsókn. Fólkið var allt frá Ítalíu.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×