Donald Trump, frambjóðandi repúblikanaflokksins í forsetakosningunum í Bandaríkjunum, mun á morgun heimsækja borgina Anaheim í Kaliforníu. Búist er við fjölmennum mótmælum vegna komu frambjóðandans til borgarinnar en innflytjendur af rómönsk-amerískum uppruna sem búa í Anaheim eru afar ósáttir við heimsókn Trump.
Anaheim er ef til vill þekktast fyrir Disneyland-skemmtigarðinn en síðustu ár hafa mótmæli og óeirðir orðið æ algengari í borginni. Ástæðan er sú að rómönsk-amerísku innflytjendurnir, sem eru í minnihluta í Anaheim, berjast fyrir auknum réttindum og meira umburðarlyndi gagnvart innflytjendum í samfélaginu.
Eins og kunnugt er hefur orðræða Trump í kosningabaráttu sinni síst einkennst af umburðarlyndi gagnvart innflytjendum og hyggst þessi minnihlutahópur í Anaheim því láta til sín taka.
Í umfjöllun um málið á vef Guardian segir Gustavo Arellano, sem er vel þekktur aktívisti í Anaheim, að með komu sinni til borgarinnar sé Trump í raun að sækja í glundroðann.
„Ég fæ í magann bara við að heyra nafnið á manninum,“ er haft eftir Ada Briceño öðrum aktívista í Anaheim.
„Ég er handviss um að það komi mikill fjöldi saman hér á morgun. Fólk mun koma því það er reitt. Þetta kemur úr grasrótinni og ég veit ekki til þess að það séu einhver samtök að skipuleggja þessi mótmæli.“
