1. deildarlið Selfoss er komið áfram í sextán liða úrslit Borgunarbikars karla í fótbolta eftir 2-1 sigur á KR í framlengdum leik á KR-vellinum í kvöld.
KR-ingar hafa verið mikið bikarlið undanfarin ár og komist í bikarúrslitaleikinn á fimm af síðustu sex árum en detta nú mjög óvænt úr leik í fyrstu umferð og það á móti liði Selfoss sem er eins og er í 9. sæti í Inkasso-deildinni.
KR-ingar hafa aðeins skorað 4 mörk í fyrstu 5 leikjum sínum í Pepsi-deildinni og ekki gekk liðin mikið betur að skora í leiknum í kvöld.
Denis Fazlagic kom KR reyndar í 1-0 á 60. mínútu eftir sendingu frá Óskari Erni Haukssyni en James Mack jafnaði fyrir Selfoss tólf mínútum síðar.
Það varð því að framlengja leikinn og þar skoraði Arnar Logi Sveinsson sigurmarkið á 116. mínútu.
Þessi úrslit eru mikið áfall fyrir Bjarna Guðjónsson og lærisveina hans í KR-liðinu en liðið hefur þar með aðeins unnið einn af fyrstu sex leikjum sumarsins í deild og bikar.
Upplýsingar um markaskorara eru fengnar af fótbolti.net

